Kallaði Obama „hóruson“

Obama brást við með því að kalla Duterte „litríkan“.
Obama brást við með því að kalla Duterte „litríkan“. AFP

Rodrigo Duterte, forseti Filippseyja, kallaði Barack Obama Bandaríkjaforseta „hóruson“ í dag og sagðist ekki myndu láta hann messa yfir sér um mannréttindi þegar þeir hittast í Laos á morgun.

Duterte gaf lítið fyrir viðvaranir þess efnis að forsetinn bandaríski myndi yfirheyra hann varðandi aðgerðir filippeyskra yfirvalda gegn fíkniefnum, sem hafa kostað 2.400 lífið á tveimur mánuðum.

„Þú verður að sýna virðingu. Ekki bara kasta fram spurningum og yfirlýsingum. Hórusonur, ég bölva þér hvað það varðar,“ sagði Duterte á blaðamannafundi, skömmu áður en hann hélt til Laos þar sem fram fer leiðtogastefna Association of Southeast Asian Nations.

„Við munum velta okkur í leðjunni eins og svín ef þú gerir mér það,“ sagði forsetinn.

Skömmu eftir að Duterte lét hin óviðurkvæmilegu ummæli falla gaf Obama til kynna að ekkert yrði af fyrirhuguðum fundi. Hann kallaði forsetann „litríkan“ og sagðist hafa beðið starfsfólk sitt að kanna hvort eitthvað hefðist með því að eiga við hann fund.

„Ef ég á fund þá vil ég alltaf tryggja að hann skili árangri og að við komum einhverju í verk,“ sagði Obama.

Duterte, 71 árs, komst til valda í maí sl. og hét því m.a. að berjast með hörku gegn fíkniefnum. Síðan hafa þúsundir látið lífið í aðgerðum lögreglu og af völdum grunaðra uppreisnarmanna.

Obama gaf í skyn að ekkert yrði af fyrirhuguðum fundi.
Obama gaf í skyn að ekkert yrði af fyrirhuguðum fundi. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka