Eins eða fleiri byssumanna er nú leitað í menntaskólanum í bænum Alpine í vesturhluta Texas í Bandaríkjunum. Fox-fréttastöðin segir að einn hafi verið skotinn og að árásarmennirnir séu tveir. Dyrum annarra skóla í bænum hefur verið læst vegna árásarinnar.
AP-fréttastofan hefur eftir starfsmanni neyðarlínu lögreglu að leit standi yfir að „virkum byssumanni“. Hann gat ekki sagt hvort einhver hefði særst en árásin er sögð hafa byrjað um kl. 9 að staðartíma. Þrír skólar eru í bænum Alpine þar sem um 5.900 manns búa.
Fox News fullyrðir hins vegar að einn hafi særst og að byssumennirnir séu tveir og hefur það eftir heimildum sýslumannsins í Brewster-sýslu. Þar kemur fram að um 280 nemendur séu í menntaskólanum. Alpine er um 320 kílómetra suðaustur af El Paso.
Uppfært 15:50 Nú hefur Fox News eftir útvarpsmanni á svæðinu að sýslumaður hafi sagt honum að annar byssumannanna hafi svipt sig lífi.