Sakaður um aðkomu að 3.681 morði

Zafke í dómsal.
Zafke í dómsal. AFP

Réttarhöld hófust í dag yfir Hubert Zafke, sem var sjúkraliði í SS-sveitunum og starfaði í Auschwitz. Meðferð málsins fyrir dómi hefur verið frestað þrisvar sinnum vegna heilsu Zafke, sem er 95 ára. Hann gekkst undir læknisskoðun í dag og í kjölfarið ákvað dómarinn að halda áfram.

Frétt mbl.is: Réttarhöldum yfir SS manni frestað

Zafke, sem starfaði m.a. sem bóndi eftir að seinni heimsstyrjöldinni lauk, þjáist af streitu, háum blóðþrýstingi og sjálfsvígshugsunum. Hann mætti í dómsal í hjólastól og tjáði sig ekki þegar ákærurnar gegn honum voru lesnar upp.

Sjúkraliðinn fyrrverandi hefur verið sakaður um aðkomu að 3.681 morði á mánaðartímabili.

Ákæruvaldið segir sveitina sem hann tilheyrði m.a. hafa haft þann starfa að dæla gasi inn í gasklefana, þar sem gyðingar og aðrir voru teknir af lífi, og að rannsaka blóð og önnur sýni úr kvenkyns föngum búðanna.

Á þeim mánuði sem um ræðir, árið 1944, komu 14 lestir til Auschwitz með gyðinga og aðra óvini nasíska ríkisins innanborðs. Meðal farþeganna voru Anna Frank og fjölskylda hennar en Anna lést í Bergen-Belsen og er ekki meðal þeirra sem Zafke er sakaður um að hafa myrt.

Lögmenn Zafke hafa haldið því fram að hann hafi eingöngu starfað sem sjúkraliði í búðunum og ekki tekið þátt í neinu saknæmu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka