Ebóluhjúkrunarfræðingur rannsakaður

Heilbrigðisstarfsmenn eiga við ebólufaraldurinn í Síerra Leóne.
Heilbrigðisstarfsmenn eiga við ebólufaraldurinn í Síerra Leóne. AFP

Aganefnd hjúkrunar- og ljósmæðraráðs Bretlands ætlar að kalla hjúkrunarfræðing sem smitaðist af ebólu í Síerra Leóne árið 2014 á teppið. Hjúkrunarfræðingurinn er sakaður um að hafa afvegaleitt lækna um heilsu sína þegar hún kom aftur til Bretlands.

Pauline Cafferkey sýktist ef ebólu þegar hún starfaði í Síerra Leóne í desember árið 2014. Hún fékk meðferð á breskum sjúkrahúsum eftir að hún sneri aftur heim. Ásakanir hafa komið fram á hendur henni um að hún hafi vitað af því að hún væri með hættulega mikinn hita þegar hún fór í skoðun á Heathrow-flugvelli við komuna til landsins en lét mæla lægri hita.

Læknir á Heathrow mældi Cafferkey með 38,2°C hita en segir að einn þeirra sem mældu hitann hafi lagt til að skráðar yrðu 37,2°C til að hjúkrunarfræðingurinn þyrfti ekki að fara í frekari rannsóknir. Á það féllst Cafferkey.

Daginn eftir greindist hún með ebólu en þá hafði hún ferðast heim til Glasgow. Cafferkey jafnaði sig af veikinni en var lögð aftur á sjúkrahús í október í fyrra þegar hún fékk heilahimnubólgu sem rakin var til ebólunnar. Aftur náði hún fullum bata en í febrúar var hún aftur sett í einangrun vegna ebólu. Hún er nú sögð við fulla heilsu.

Fleiri en 11.300 manns létust í ebólufaraldrinum í Vestur-Afríku á tveimur árum áður en Alþjóðaheilbrigðisstofnunin lýsti því yfir að honum væri lokið í síðasta mánuði.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert