Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins hefur ekki lengur stuðning Frakklands til þess að halda áfram viðræðum við Bandaríkin um fríverslunarsamning. Þetta sagði Matthias Fekl, aðstoðarviðskiptaráðherra Frakklands, á fundi með Evrópumálanefnd franska þingsins í dag. Hann sagði að frönsk stjórnvöld myndu þó ekki koma í veg fyrir viðræðurnar.
„Framkvæmdastjórnin hefur allan rétt á því að standa í viðræðunum eins lengi og hún vill,“ sagði hann. Hins vegar væri afstaða Frakklands skýr. Frönsk stjórnvöld vildu að viðræðunum yrði hætt og þeirri afstöðu yrði haldið á lofti á fundi viðskiptaráðherra ríkja Evrópusambandsins í Bratislava í Slóvakíu 23. september. Hann sagði að umboð framkvæmdastjórnarinnar til þess að standa í viðræðunum hefði ekki lengur stuðning ríkisstjórnar Frakklands.
Fekl sagði að Bandaríkin hefðu ekki verið reiðubúin að koma til móts við Evrópusambandið líkt og að opna opinber bandarísk útboð fyrir evrópskum fyrirtækjum. Fleiri evrópskir ráðamenn hafa á undanförnum mánuðum lýst andstöðu sinni við áframhaldandi viðræður við Bandaríkjamenn eða lýst efasemdum sínum um að viðræðurnar myndu skila árangri.