Sagði Trump vera „þjóðarskömm“

Colin Powell, fyrrverandi utanríkisráðherra Bandaríkjanna.
Colin Powell, fyrrverandi utanríkisráðherra Bandaríkjanna. AFP

Colin Powell, fyrrverandi utanríkisráðherra Bandaríkjanna, sagði Donald Trump, forsetaframbjóðanda Repúblikanaflokksins, vera „þjóðarskömm“ og „alþjóðlegt úrhrak“ í persónulegum tölvupósti sínum sem lekið hefur verið á netið.

„Hann höfðar til verstu englanna í Repúblikanaflokknum og fátæks hvíts fólks,“ skrifaði Powell um Trump, í einum tölvupóstanna sem barst til vefsíðunnar DC Leaks.

Powell, sem var utanríkisráðherra á árunum 2001 til 2005, staðfesti við NBC að tölvupóstarnir væru ófalsaðir og að tölvuþrjótarnir hefðu yfir að ráða „mun meira“ efni.

Donald Trump.
Donald Trump. AFP

Samkvæmt The Daily Caller er talið að þeir hafi látið DC Leaks í té um 30 þúsund af tölvupóstum Powells.

Stutt er síðan fjölmiðar greindu frá því að Powell hefði ráðlagt Hillary Clinton, forsetaframbjóðanda Demókrataflokksins, hvernig best væri að halda opinberum tölvupóstum úr augsýn almennings, er hún tók við sem utanríkisráðherra Bandaríkjanna.

Rannsókn bandarísku alríkislögreglunnar, FBI, á notkun hennar á persónulegum tölvupósti sínum í starfi sínu sem utanríkisráðherra, hefur skyggt á forsetaframboð hennar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert