Mannúðarsamtökin Amnesty International og American Civil Liberties Union ætla að biðja forseta Bandaríkjanna, Barack Obama, um að veita uppljóstraranum Edward Snowden sakaruppgjöf í kjölfar nýrrar kvikmyndar Oliver Stone um mál Snowdens.
„Ég tel að Oliver eigi eftir að gera meira fyrir Snowden á tveimur klukkustundum heldur en lögfræðingum hans hefur tekist að gera á þremur árum,“ segir Ben Wizner, lögmaður Snowdens.
Samtökin ætla að senda frá sér sameiginlegt ákall síðar í dag en það verður gert með því að setja af stað herferð um allan heim þar sem fólk er beðið að skrifa undir beiðnina. Eins verður reynt að fá áhrifafólk til þess að taka þátt auk samtaka af ýmsu tagi. Undirskriftum verður safnað á sérstökum vef Pardon Snowden.
Stone hvatti Obama til þess að veita Snowden sakaruppgjöf þegar hann frumsýndi mynd sína Swoden á kvikmyndahátíðinni í Toronto í síðustu viku.
Sarah Harrison, talsmaður WikiLeaks, sem aðstoðaði Snowden við flóttann frá Hong Kong til Rússlands á sínum tíma, segist vonast til þess að kvikmyndin veiti Snowden uppreisn æru en hún efist um að hann fái sakaruppgjöf. „Það væri dásamlegt ef það myndi gerast en ég yrði afar undraði ef það myndi gerast,“ segir Harrison.
Dvalarleyfi Snowdens í Rússlandi rennur út á næsta ári. Harrison segir að þegar það gerist kvikni spurningin um hvar hann geti verið öruggur. „Eðliega hefur hann áhuga á að snúa aftur heim,“ segir hún í viðtali við AFP fréttstofuna. En ef það gengur ekki þá myndi hann gjarnan vilja fá hæli í öðrum ríkjum, þar á meðal í Evrópu. Kannski á staða hans eftir að batna en hingað til hefur honum verið synjað um hæli.
Eins og staðan er í dag, þar sem Bandaríkin eru slíkt veldi og raun ber vitni, eru möguleikar hans litlir. Hún segir að vernd uppljóstrara sé af skornum skammti í Bandaríkjunum en ef almenningur er að taka við sér í þessum efnum þá sé það af hinu góða og fyrsta skrefið í átt að breytingu.
Snowden bað Obama persónulega um að veita sér sakaruppgjöf í grein sem birt var í Guardian í gær en vitalið við hann var tekið símleiðis á mánudag þar sem Snowden nýtur ekki ferðafrelsis.
Bandaríska forsetaembættið hafnaði beiðni frá 150 þúsund manns um að náða Snowden í fyrra með þeim orðum að réttað yrði yfir honum.