Staðfest að brakið er úr MH370

Brakið sem fannst við strendur Tansaníu er úr MH370.
Brakið sem fannst við strendur Tansaníu er úr MH370. AFP

Stjórnvöld í Malasíu hafa staðfest að brak sem fannst við eyjuna Pemba utan við Tansaníu er úr farþegaþotu Malaysia Airlines, MH370. Brakið fannst í júní og hefur tekið margar vikur að fá úr því skorið hvort það sé úr umræddri vél sem hvarf fyrir rúmlega tveimur árum, í mars 2014.

Um borð voru 239 manns. Vélin var af gerðinni Boeing 777. Hún var á leið frá Kuala Lumpur í Malasíu til Peking en hvarf af ratsjám fljótlega eftir flugtak. Gríðarlega umfangsmikil leit var gerð að vélinni en án árangurs.

Brakið verður nú rannsakað enn frekar í þeim tilgangi að kanna hvort að vísbendingar finnist um hvað varð til þess að vélin hvarf og hrapaði í hafið, að því er nú hefur komið í ljós.

Áður hafði verið staðfest að brak sem fannst við eyjuna Reunion í júlí í fyrra var úr MH370. Nú er verið að rannsaka brak sem fannst við Mósambík og Suður-Afríku.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka