Donald Trump, forsetaframbjóðandi repúblikana, gerði heilsufar keppinautar síns um forsetastól Bandaríkjanna, Hillary Clinton, að umtalsefni í gær. Hann sagðist efast um að Clinton þyldi við í fundarherberginu vegna hitans þar. „Heldur þú að þetta sé auðvelt?“ spurði Trump.
Vísaði hann til þess að Clinton þurfti að yfirgefa minningarathöfn í New York á sunnudag og var hitanum kennt um. Um var að ræða athöfn þar sem minnst var hryðjuverkanna í Bandaríkjunum 11. september 2001. Clinton hafði verið í eina og hálfa klukkustund við athöfnina þegar hún fann til vanlíðunar og fór að bíl sínum í fylgd aðstoðarmanna. Á myndskeiði sem var dreift á félagsmiðlum virtist hún missa fótanna en aðstoðarmenn hennar studdu hana og hjálpuðu henni í bílinn.
Þetta kom fram í máli Trumps þegar hann ávarpaði stuðningsmenn sína í loftkældum körfuboltasal í Canton Ohio. Hann sagði að það væri heitt í herberginu (50 stiga hiti á celsíus). „Það er alltaf heitt þar sem ég kem fram því það eru svo margir áheyrendur. Herbergi sem þetta er ekki hannað fyrir slíkan mannfjölda. Ég veit það ekki félagar. Haldið þið að Hillary Clinton gæti staíð hér og gert þetta í meira en klukkustund? Ég veit það ekki,“ sagði Trump á fundinum.
Áfram hélt hann: „Nú liggur hún uppi í rúmi og jafnar sig og við viljum að henni batni. Við viljum hana aftur í baráttuna ekki satt?,“ sagði Trump samkvæmt frétt Guardian.
Donald Trump heimsótti einnig borgina Flint í Michigan í gær. Meðal annars ávarpaði hann gesti í kirkju svartra í borginni en var stoppaður af þegar hann fór að níða Clinton. Minnti presturinn Trump á að hann væri ekki í húsi guðs til þess að flytja kosningaræðu.
Trump sagði við kirkjugesti að Hillary Clinton hafi brugðist efnahagslífinu líkt og hún hafi brugðist í utanríkisstefnu sinni. „Allt sem hún kemur nálægt mistekst, allt,“ sagði Trump við 50 kirkjugesti.
Kirkjan þjónar hlutverki vatnsdreifingarmiðstöðvar blýmengun í vatni borgarinnar hafði áhrif á tæplega 100.000 íbúa borgarinnar en stærstur hluti íbúanna býr við mikla fátækt.
Presturinn, Faith Green Timmons, stöðvaði Trump og sagði honum að hún hafi boðið honum þangað til þess að þakka þeim fyrir hvað kirkjan hafi gert í Flint, ekki til þess að flytja stjórnmálaræðu.
Áður var Flint miðstöð bílaframleiðslu en það er liðin tíð og misstu tugir þúsunda íbúa vinnuna þegar bílaverksmiðjum var lokað þar.
„Áður var það þannig að bílar voru framleiddir í Flint og þú gast ekki drukkið vatnið í Mexíkó,“ sagði Trump. „Nú er það þannig að bílarnir eru framleiddir í Mexíkó og þú getur ekki drukkið vatnið í Flint.“
Vísaði hann þar til þess að Ford bílaframleiðandinn tilkynnti í gær að öll framleiðsla á litlum bifreiðum yrði flutt til Mexíó.
Clinton birti læknaskýrslur sínar í gær og segir læknir hennar að húns é heilsuhraust og sé fullfær um að gegna embætti forseta Bandaríkjanna.
Trump sagði fyrr í vikunni að hann hygðist birta upplýsingar um heilsufar sitt innan tíðar. Það hefur hann ekki gert fyrir utan það að í desember birti hann stuttan texta um að ef hann yrði kjörinn forseti Bandaríkjanna yrði hann sá heilsuhraustasti í sögu bandaríska forsetaembættisins.
Í viðtali sem verður birt síðar í dag kemur fram að Trump vilji losna við 7 kg, að hann stundi ekki líkamsrækt og þyki skyndibitamatur góður.