Margir særðir eftir sprengingu

Sprenging varð í hverfinu Chelsea í New York í Bandaríkjunum í gær með þeim afleiðingum að 29 manns særðust. Ekki er talið að sprengingin tengist hryðjuverkastarfsemi.

Fram kemur í frétt AFP að ástand eins hinna særðu sé alvarlegt en 24 voru fluttir á sjúkrahús. Haft er eftir Bill de Blasio, borgarstjóra New York, að ekkert bendi til þess eins og sakir standi að um hryðjuverk hafi verið að ræða. Það verði hins vegar rannsakað frekar.

Lögreglan segir ekki liggja fyrir hvað olli sprengingunni sem átti sér stað klukkan 8:30 að staðartíma. Skömmu eftir miðnætti að íslenskum tíma. Hins vegar er ekki talið að um gassprengingu hafi verið að ræða. „Við teljum þetta viljaverk,“ sagði de Blasio.

AFP

Bandaríska sjónvarpsstöðin CNN segir að talið sé að sprengingin hafi orðið í ruslagámi. Önnur ósprungin sprengja hafi fundist skammt frá þeim stað þar sem sprengingin varð. Lögregla fari um hverfið með leitarhunda til þess að kanna hvort fleiri sprengjur sé að finna þar.

Lögregla hefur skoðað eftirlitsmyndavélar verslana í nágrenninu og á einni upptöku sést einstaklingur við gáminn skömmu áður en sprengingin varð. Verið er að kanna hvort hann tengist sprengingunni. Öryggisgæsla hefur verið aukin í hverfinu og nágrenni þess en de Blasio segir að engin hætta sé talin steðja að almennum borgurum.

Nokkrum klukkustundum áður en sprengjan sprakk í New York sprakk rörasprengja í ruslatunnu í New Jersey en enginn særðist vegna sprengingarinnar. Þrjár aðrar ósprungnar rörasprengjur fundust skammt frá. Ekki er talið að tenging sé á milli þessara tveggja atburða að sögn de Blasios.

AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert