Sprengingin í New York hryðjuverk

Frá vettvangi í New York-borg í gærkvöldi.
Frá vettvangi í New York-borg í gærkvöldi. AFP

Sprengingin sem varð í New York í gærkvöldi og olli því að 29 manns særðust var hryðjuverk en þó ekki með neina tengingu við alþjóðleg hryðjuverkasamtök. Þetta kom fram í máli Andrew Cuomo, ríkisstjóra New York, í dag eftir að hann hafði skoðað vettvang sprengingarinnar.

Sagði Cuomo að yfirvöld myndu finna þann sem bæri ábyrgð á ódæðinu og rétta yfir honum. Sprengingin varð í hverfinu Chelsea sem er eitt af helstu tískuhverfum Manhattan. Varð sprengingin klukkan 20:30 að staðartíma.

„Sprenging í New York er klárlega hryðjuverk, en það eru engar tengingar við alþjóðleg hryðjuverkasamtök. Með öðrum orðum, við sjáum enga tengingu við íslamska ríkið o.s.frv.,“ var haft eftir Cuomo. Sagði hann að sprenging væri venjulega hryðjuverk og að þannig yrði málið skoðað og ákært fyrir það.

Eitt þúsund lögreglumenn voru kallaðir út eftir sprenginguna til að gæta flugvalla, lestarstöðva og rútustöðva í borginni. Önnur ósprung­in sprengja fannst skammt frá þeim stað þar sem spren­ging­in varð.

Lögreglan lokaði svæðinu þar sem sprengingin varð í gær.
Lögreglan lokaði svæðinu þar sem sprengingin varð í gær. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert