Grunaður um hryðjuverk í New York

Ahmad Khan Rahami.
Ahmad Khan Rahami. AFP

Maður sem bandaríska alríkislögreglan leitar í tengslum við sprengjutilræðið í New York á laugardagskvöldið heitir Ahmad Khan Rahami og er 28 ára Bandaríkjamaður ættaður frá Afganistan.

Talsmaður lögreglunnar í New York segir að Rahami sé leitað í tengslum við sprengjutilræðið í Chelsea-hverfinu á laugardagskvöldið.  29 særðust þegar sprengja sprakk við ruslagám á 23. stræti.

Rahami, sem býr í New Jersey og er með bandarískan ríkisborgararétt, er talinn vopnaður og hættulegur, að sögn Bill de Blasio, borgarstjóra í New York. 

„Við vitum mun meira núna en við vissum fyrir aðeins sólarhring síðan,“ segir Blasio sem var gestur í þættinum Good Morning America á ABC sjónvarpsstöðinni í morgun. Hann segir að allt bendi til þess að um afmarkaða hryðjuverkaárás hafi verið að ræða.

Í tilkynningu frá lögreglu kemur fram að lögregla vilji ræða við hann í tengslum við sprengjutilræðið. 

Bandaríska alríkislögreglan (FBI) hefur auglýst eftir Ahmad Khan Rahami.
Bandaríska alríkislögreglan (FBI) hefur auglýst eftir Ahmad Khan Rahami. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka