Margar sprengjur fundust í New Jersey

AFP

Bandaríska alríkislögreglan (FBI) hefur staðfest að margháttaður sprengibúnaður hafi fundist í grunsamlegum pakka á lestarstöð í borginni Elizabeth í New Jersey í nótt. AP-fréttastofan hafði greint frá þessu fyrr í morgun, en ein sprengjan sprakk þegar vélmenni var að aftengja hana á lestarstöðinni. Í Twitter-færslu FBI í Newark kemur fram að enginn hafi slasast þegar sprengjan sprakk. 

Frétt mbl.is: Fundu sprengjuefni í New Jersey

Borgarstjórinn í Elizabeth, Chris Bollwage, hafði áður greint blaðamönnum frá því að tveir menn sem voru á gangi við lestarstöðina hefðu séð bakpoka í ruslafötu. Eftir að þeir tóku eftir því að alls konar vírar og rör voru á bakpokanum höfðu þeir samband við lögreglu. 

Þrjár árásir voru gerðar í Bandaríkjunum á laugardag. 29 særðust þegar sprengja sprakk í Chelsea-hverfinu í New York á laugardagskvöldið og fannst önnur sprengja ósprungin þar skammt frá. Fyrr um daginn hafði rörasprengja sprungið í New Jersey, skammt frá hlaupaleið Marine Corps-góðgerðarhlaupsins en engan sakaði. Sprengjan sprakk skömmu áður en hlaupið hófst og var því aflýst vegna sprengjunnar.

Enn er óljóst hvort bakpokinn sem fannst í Elizabeth tengist þessum tilræðum en lestarsamgöngum um Elizabeth hefur verið aflýst. 

Í frétt New York Times kemur fram að fimm séu í haldi vegna sprengjunnar í New York, en sprengjunni var ætlað að valda sem mestu tjóni miðað við útbúnaðinn.

Í versl­un­ar­miðstöð í St. Cloud í Minnesota stakk banda­rísk­ur maður af sómölsk­um upp­runa níu manns áður en hann var skot­inn til bana af lög­reglu­manni á laugardagskvöldið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert