Margt á huldu um árásirnar vestanhafs

Þungvopnaður lögreglumaður stendur vörð við Times-torg í New York. Öryggisgæsla …
Þungvopnaður lögreglumaður stendur vörð við Times-torg í New York. Öryggisgæsla hefur verið aukin í borginni eftir sprenginguna á laugardagskvöld. AFP

Umfangsmikil leit stendur nú yfir að karlmanni á þrítugsaldri sem grunaður er um aðild að sprengjutilræðinu í New York á laugardagskvöld og í New Jersey fyrr sama dag. Enn er ýmislegt á huldu um tilræðin tvö og hnífsárás í Minnesota og jafnframt um hvort þau tengist alþjóðlegri hryðjuverkastarfsemi.

Þrjú tilræði sem gerð voru í Bandaríkjunum á laugardag hafa vakið upp spurningar um hvort að um alþjóðleg hryðjuverk hafi verið að ræða. Fyrst sprakk sprengja við götu í New Jersey þar sem hlaupakeppni átti að fara um á laugardag. Um kvöldið særðust svo 29 manns þegar sprengja sprakk í Chelsea-hverfinu á Manhattan-eyju í New York og níu þegar Bandaríkjamaður af sómölskum uppruna stakk þá með hnífi í verslunarmiðstöð í Minnesota.

Ekki liggur hins vegar fyrir með vissu hver framdi árásirnar, hvort þær tengist innbyrðis og hvort erlend hryðjuverkasamtök hafi fyrirskipað þær.

New York

Sprengingin í New York varð kl. 20:30 á laugardagskvöld að staðartíma. Skömmu eftir hana fundu lögreglumenn hraðsuðupott sem virtist tengdur við farsíma með svörtum vírum. Upptökur eftirlitsmyndavéla leiddu í ljós að sami maður var á ferð við ruslagáminn þar sem sprengjan sprakk og þar sem hraðsuðupotturinn fannst.

Lögreglan í New York tilkynnti svo í dag að allt tiltækt lið hennar hafi verið beðið um að leita að Ahmad Khan Rahami, 28 ára gömlum Bandaríkjamanni af afgönskum uppruna. Samkvæmt frétt CNN er síðasta þekkta heimilisfang hans í bænum Elizabeth í New Jersey en þar fannst bakpoki fullur af sprengiefni í gærkvöldi. Ekki hefur þó verið staðfest að fundur sprengiefnanna tengist sprengingunni í New York eða New Jersey.

Ekki hefur komið skýrt fram hvort að Rahami sé grunaður um að hafa staðið að baki tilræðinu en Bill de Blasio, borgarstjóri New York, sagði í morgun að hann gæti verið vopnaður og stórhættulegur. Það væri nauðsynlegt öryggi borgarinnar að hafa hendur í hári hans.

Allir þeir sem særðust í sprengingunni á laugardagskvöld hafa verið útskrifaðir af sjúkrahúsi.

Alríkislögreglan hefur gert nokkrar húsleitir í bænum Elizabeth í New …
Alríkislögreglan hefur gert nokkrar húsleitir í bænum Elizabeth í New Jersey. Bakpoki með rörasprengjum fundust þar í gærkvöldi og síðasta þekkta heimilisfang mannsins sem leitað er að er í bænum. AFP

New Jersey

Fyrr á laugardag sprakk lítil rörasprengja í ruslafötu nærri hlaupaleið góðgerðarhlaups sem landgöngulið bandaríska flotans stóð fyrir. Þrjár frumstæðar rörasprengjur fundust í grennd við hlaupaleiðina. Engan sakaði í sprengingunni en svo vildi til að hlaupinu seinkaði vegna skráningarvandamála þannig að enginn var nærri ruslafötunni þegar hún sprakk.

Þrátt fyrir líkindi við sprenginguna í New York hefur ekki verið staðfest að tilræðin tvö tengist. The New York Times hefur hins vegar eftir ónafngreindum heimildamanni innan lögreglunnar í New York að vísbendingar séu um að Rahami tengist báðum sprengingum, meðal annars öryggismyndavélaupptökurnar. Ekkert tengi hann við Ríki íslams eða al-Qaeda á þessari stundu en það sé margt sem ekki er vitað um hann.

„Við þekkjum ekki hugmyndafræði hans eða hvað rak hann áfram eða hvort hann laut skipunum eða hvort hann hafði fengið innblástur. Við vitum ekkert af þessu,“ segir heimildamaður New York Times.

Minnesota

Í kjölfar hnífstunguárásarinnar í verslunarmiðstöð í Minnesota á laugardagskvöld lýstu hryðjuverkasamtökin Ríki íslams því yfir að „hermaður“ þess hafi verið þar að verki. Árásarmaðurinn er 22 ára gamall Bandaríkjamaður af sómölskum uppruna.

Hann klæddist einkennisbúningi einkaöryggisfyrirtækis og er sagður hafa ákallað Allah og spurt að minnsta kosti einn mann hvort hann væri múslimi áður en hann lét til skarar skríða, að sögn lögreglu og vitna.

Ekki hefur hins vegar verið staðfest að árásarmaðurinn hafi í raun framið árásirnar í nafni samtakanna. Hann var skotinn til bana af lögreglumanni á frívakt.

Níu manns særðust í hnífstunguárás í verslunarmiðstöð í Minnesota á …
Níu manns særðust í hnífstunguárás í verslunarmiðstöð í Minnesota á laugardagskvöld. AFP

Eftirköstin

Öryggisgæsla hefur verið aukin til muna í New York í kjölfar sprengingarinnar, ekki síst vegna þess að þjóðarleiðtogar funda á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna þar í dag. De Blasio hefur varað borgarbúa við því að þeir ættu að búast við því að lögreglan verði mun sýnilegri á götum borgarinnar.

„Á næstu klukkustundum munum við geta sagt mun meira um það sem gerðist hérna. Það bendir vissulega frekar til þess að um sértækt hryðjuverk hafi verið að ræða,“ sagði borgarstjórinn í sjónvarpsviðtali í morgun.

Frétt New York Times

Frétt CNN

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert