Schumacher getur ekki staðið óstuddur

Michael Schumacher.
Michael Schumacher. AFP

Michael Schumacher getur enn hvorki gengið né staðið án hjálpar, meira en tveimur og hálfu ári eftir skíðaslysið sem varð honum næstum að bana. Upplýsingar um heilsufar formúlumeistarans fyrrverandi hafa verið gerðar opinberar í réttarhöldum sem standa nú yfir í Þýskalandi.

Fjölskylda Schumachers hefur lögsótt þýska tímaritið Bunte vegna fréttar þess á síðasta ári þar sem fullyrt var að hann gæti gengið á ný.

„Hann getur ekki gengið,“ sagði Felix Damm, lögmaður fjölskyldunnar, við réttarhöldin í Hamborg í dag. 

Schumacher var nær dauða en lífi eftir að hann féll og rak höfuðið í grjót á leið niður skíðabrekku með syni sínum í desember árið 2013. Mikill fögnuður ríkti því í Þýskalandi þegar fullyrt var á forsíðu tímaritsins að hann hefði náð kraftaverkabata og gæti aftur gengið.

Fjölskyldan var fljót til að neita þessum fullyrðingum og krefst nú 40-100 þúsund evra, eða 5-13 milljóna króna, vegna meints brots á friðhelgi einkalífs Schumacher.

Breska dagblaðið Telegraph greinir frá.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert