Alvarlega særður eftir handtöku

Ahmad Khan Rahami, sem er grunaður um aðild að sprengjutilræði í New York og New Jersey á laugardag, er alvarlega særður en ástand hans er stöðugt. Rahami særðist þegar til skotbardaga kom á milli hans og lögreglu þegar hann var handtekinn í gær í Linden, New Jersey.

Rahami, sem er 28 ára gamall, var handtekinn fjórum klukkustundum eftir að alríkislögreglan (FBI) lýsti eftir honum og birti mynd af honum. Eins voru skilaboð send út til milljónir manna af FBI.

„Þungt haldinn en stöðugt,“ sagði James O'Neill, lögregluvarðstjóri í New York, í viðtali við CBS News þegar hann var spurður um hvort Rahami myndi lifa en hann fékk fjölmörg skot í sig og var í aðgerð í margar klukkustundir í gær.

Hann hefur verið ákærður fyrir morðtilraun í fimm liðum og ólöglegan vopnaburð. Lögreglan rannsakar ástæðuna á bak við tilræðin en 29 særðust í New York. 

Í ljós hefur komið að Rahami fór oft til Afganistan og Pakistan á undanförnum árum en ekkert hefur fundist sem tengir hann við vígasveitir eins og Ríki íslams og talibana.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert