Bæjarstjórinn í franska bænum Villeneuve-Loubet segir að áströlsk kona, sem var látin yfirgefa baðströnd bæjarins þar sem hún klæddist búrkíní-sundfatnaði, hafi hegðað sér ósæmilega.
Lionnel Luca, sem bæjarstjóri fyrir Repúblikanaflokkinn, ver bæjarbúa sem voru ósáttir við veru ungu konunnar, Zeynab Alshelh frá Sydney, á baðströndinni en hún lýsti því fyrir áströlskum fjölmiðlum í gær hvernig hún var hrakin af ströndinni.
Frétt mbl.is: Áströlsk kona rekin af ströndinni
Luca segir að hún hafi getað sagt sér það sjálf að fólk á frönsku Riveríunni væri ekki búið að jafna sig eftir árás vígamanns sem kostaði 86 lífið í Nice.
Hann segir að unga konan geti ekki bara komið á strönd bæjarbúa í trúarlegum klæðnaði sem er tákn bókstafstrúarinnar sem drap okkur, segir Luca og segir Alshelh hafa hegðað sér ósæmilega.
Alshelh, sem er 23 ára gömul og læknanemi í Sydney, lýsti því í sjónvarpi í gær hvernig gestir á ströndinni í Villeneuve-Loubet hafi hótað henni þrátt fyrir að æðsti dómstóll Frakklands hafi lagst gegn búrkíní-banni franskra strandbæja. Alshelh sagði í viðtalinu að hún hafi farið til Evrópu með fjölskyldu sinni til þess að sýna frönskum múslímum sem klæðast búrkíní, samstöðu.
Sýndar voru myndir í ástralska sjónvarpinu þar sem bæjarbúar sjást veitast að Alshelh á ströndinni.