Pabbinn hafði samband við FBI árið 2014

Ahmad Khan Rahami.
Ahmad Khan Rahami. AFP

Faðir Ahmad Khan Rahami, sem grunaður er um aðild að sprengjuárásunum í New York, setti sig í samband við bandarísku alríkislögregluna árið 2014 og sagðist hafa áhyggjur af því að sonur sinn væri hryðjuverkamaður.

Mohammed Rahami hafði samband við FBI eftir að sonur hans var handtekinn vegna stunguárásar.

„Fyrir tveimur árum fór ég til FBI af því að syni mínum vegnaði illa, ókei?“ sagði Rahami eldri við New York Times. „En þeir athuguðu í næstum tvo mánuði og sögðu: Hann er ókei, hann er saklaus, hann er ekki hryðjuverkamaður. Ég sagði: Ókei.“

„Nú segja þeir að hann sé hryðjuverkamaður. Ég segi: Ókei.“

Associated Press hefur eftir heimildarmanni innan löggæslunnar að FBI hefði kannað málið en að Mohammed Rahami hefði dregið ásakanir sínar til baka og sagt að hann hefði meint að sonur sinn væri í slæmum félagsskap.

FBI ku hafa farið í gegnum gagnagrunna sína og ekki fundið tengingu milli sonarins og ógnar við Bandaríkin.

Ítarlega frétt um málið má finna hjá Guardian.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert