Ung stúlka sem bjargaði flóttamönnum frá drukknun, lögfræðingur sem hefur barist gegn barnagiftingum og pakistönsk samtök sem veita konum og stúlkum í sveitum nauðsynlega heilsugæslu, fengu í gær afhent heimsmarkmiðaverðlaun Sameinuðu þjóðanna.
Þetta var í fyrsta sinn sem verðlaunin eru veitt en þau hljóta þau sem hafa þótt skara fram úr í baráttunni fyrir réttindum kvenna og stúlkna. Verðlaunin eru samstarfsverkefni UNICEF, Project Everyone og Unilever, að því er fram kemur á heimasíðu UNICEF á Íslandi.
„Verðlaunin voru veitt í þremur flokkum. Þau fyrstu voru ætluð stúlku eða ungri konu sem stuðlað hefur að bættu lífi stúlkna. Þau hlaut Yusra Mardini, 18 ára sýrlensk stúlka og keppandi á Ólympíuleikunum í sundi, fyrir að hafa bjargað flóttafólki sem var samferða henni yfir Eyjahafið frá drukknun. Yusra og systir hennar flúðu stríðið í Sýrlandi árið 2015 og búa nú í Þýskalandi. Flekinn sem þær ferðuðust á brotnaði í sundur á miðri leið yfir hafið. Með því að stökkva út í vatnið og leiða flekann í örugga höfn björguðu systurnar um 20 manns. Yusra var hluti af Ólympíuliði flóttamanna á Ólympíuleikunum í Ríó í ár og notaði tækifærið til að segja sína sögu og vekja með því athygli á erfiðleikum flóttamanna og farandfólks um allan heim,“ segir í frétt UNICEF.
„Önnur verðlaunin voru ætluð einstaklingi sem unnið hefur að samfélagslegum breytingum í þágu stúlkna. Þau hlaut Rebeca Gyumi fyrir baráttu sína gegn giftingum barna í Tansaníu. Rebeca er lögfræðingur, aktívisti og stofnandi og framkvæmdastjóri Msichana Initiative, hjálparsamtaka sem berjast fyrir réttindum stúlkna og aðgengi þeirra að menntun.
Þriðju verðlaunin falla í skaut samtaka sem bætt hafa líf stúlkna og kvenna. Í ár hlutu samtökin DoctHERS verðlaunin fyrir að veita stúlkum og konum heilsugæslu í sveitum Pakistan. Á myndinni sést dr. Sara Saeed taka við verðlaununum fyrir hönd samtakanna. Kvenkyns læknar í Pakistan hætta mjög oft að vinna eftir að hafa gengið í hjónaband. DoctHERS leiðir saman kvenkyns lækna og konur og stúlkur í sveitum sem þurfa á þjónustu að halda með hjálp internetsins. Þannig nýta samtökin fjarlækningar til að veita nauðsynlega heilsugæslu ásamt því að stuðla að aukinni atvinnuþátttöku pakistanskra kvenna.“