Ekki hægt að tengja við MH370

AFP

Ekkert bendir til þess að brak farþegaþotu Malaysia Airlines, flug MH370, sem bandarískur áhugamaður um leitina fann, hafi sprungið vegna hita eða elds. Þetta kemur fram í niðurstöðu ástralska yfirvalda sem rannsaka hvarf farþegaþotunnar í mars 2014.

Samgöngustofa í Ástralíu, Australian Transport Safety Bureau (ATSB), sem sér um skipulag á leit að Boeing 777 þotu Malaysia Airlines sem hvarf af ratsjám á leið frá Kuala Lumpur til Peking 8. mars 2014 með 239 manns um borð, segir að ekki hafi enn tekist að tengja brakið við flug MH370.

Bandaríkjamaðurinn, Baline Gibson, kom nýverið með tvo hluti frá Madagaskar til Ástralíu til rannsóknar þar sem hann taldi að þetta væri brak úr þotunni. Samkvæmt fjölmiðlum í Ástralíu bar annar hluturinn merki um bráðnun, svona eins og gerist þegar sprenging verður.

Samgönguráðherra Ástralíu, Darren Chester, greindi frá því í dag að ekkert benti til þess að hlutirnir tveir hefðu orðið fyrir sprengingu, hvorki af völdum hita eða elds.

Chester segir að ekki sé heldur hægt að fullyrða að um brak úr MH370 sé að ræða eða jafnvel hvort það er einu sinni úr Boeing 777 þotu.

AFP
Blaine Gibson.
Blaine Gibson. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka