Lítil stúlka missti alla fjölskylduna

Rawan Alowsh sést hér liggja slösuð í sjúkrarúmi á spítala …
Rawan Alowsh sést hér liggja slösuð í sjúkrarúmi á spítala í Aleppo. Skjáskot/Sky

Fimm ára stúlka, sem grafin var upp úr rústum húsa í Aleppo í dag eftir loftárás, er sú eina úr fjölskyldu sinni sem lifði árásina af. Upptaka af því þegar björgunarmenn grafa stúlkuna á lífi úr rústunum var m.a. birt á vef Sky-fréttastofunnar í dag og sýnir hrikalega veruleika sem almennir borgarar búa við í borginni og víðar í Sýrlandi.

Miklar loftárásir hófust aftur á Aleppo í gærkvöldi og í dag eftir vopnahlé sem hélt aðeins í nokkra daga.

Rawan Alowsh gat ekki hreyft sig er björgunarmenn náðu henni undan þungu brakinu. Hún rekur upp angistaróp á meðan björgunarmennirnir keppast við að grafa hana upp úr steypubrotunum og jarðveginum áður en þeir ná henni loks upp úr holu. Þeir toga hana upp á taglinu sem hún er með í hári sínu. 

Rawan litla var slösuð og flutt á sjúkrahús, þakin blóði og ryki. 

Litla stúlkan átti þrjár systur og einn bróður. Þau létust öll í loftárásinni. Það urðu einnig örlög foreldra hennar. 

Í morgun sveimuðu fimm flugvélar yfir Aleppo. Þær slepptu sprengjum á borgina, aðallega á austurhluta hennar. Ammar al Selmo, formaður borgaralegrar björgunarsveitar á svæðinu, segir í samtali við Sky-fréttastofuna að vélarnar hafi verið rússneskar.

Sprengjuregnið í morgun er sagt hafa eyðilagt að minnsta kosti 40 byggingar. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert