Skoða kynferðisleg skilaboð Weiner

Anthony Weiner er enn og aftur í vondum málum vegna …
Anthony Weiner er enn og aftur í vondum málum vegna kynferðislegra skilaboða. AFP

Fyrrverandi þingmaður demókrata, Anthony D. Weiner, rataði í heimspressuna þegar hann varð uppvís að því að hafa sent klúrar myndir af sér til kvenna á netinu. Nú hafa alríkisyfirvöld í New York til skoðunar ásakanir um að hann hafi sent fimmtán ára gamalli stúlku kynferðisleg skilaboð.

Fjölmiðlar héldu því fram í vikunni að Weiner hafi sent ungri stúlku kynferðisleg smáskilaboð og skilaboð á samfélagsmiðlum frá því í janúar. Stúlkan vilji hins vegar ekki kæra hann því hún teldi sambandið við Weiner gagnkvæmt.

New York Times greinir nú frá að alríkisyfirvöld í New York hafi lagt fram stefnu til að fá afhent gögn sem tengjast þessum ásökunum.

Weiner sat í fulltrúadeild Bandaríkjaþings fyrir Demókrataflokkinn til ársins 2011. Hann sagði af sér eftir að í ljós kom að hann hefði sent 21 árs gamalli konu klúra ljósmynd af sjálfum sér. Í kjölfarið viðurkenndi hann að hafa átt í óviðeigandi sambandi við konur á netinu. Málið komst aftur í hámæli þegar hann bauð sig fram til embættis borgarstjóra New York.

Frétt mbl.is: Ferillinn hrundi eftir klúru myndina

Eiginkona hans, Huma Abedin sem er einn helsti aðstoðarmaður forsetaframbjóðandans Hillary Clinton, óskaði eftir aðskilnaði frá honum eftir að ásakanir um að hann hefði skipst á kynferðislegum skilaboðum við konu birtust í fjölmiðlum. Hann var meðal annars sagður hafa sent konunni mynd af klofinu á sér þar sem hann lá við hlið fjögurra ára gamals sonar þeirra hjóna.

Barnaverndaryfirvöld í New York hófu rannsókn á meðferð hans á drengnum í kjölfar þeirra frétta.

Frétt New York Times

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert