Segist ekki fá að hitta Rahami

Ahmad Khan Rahami sást á upptökum öryggismyndavéla á þeim slóðum …
Ahmad Khan Rahami sást á upptökum öryggismyndavéla á þeim slóðum þar sem sprengja sprakk og önnur fannst í New York á laugardag. AFP

Skipaður verjandi Ahmads Rahami sem handtekinn var í tengslum við sprengingar í New York og New Jersey um síðustu helgi kvartar undan því að hann hafi ekki fengið að hitta. Borgararéttindasamtök hafa lýst áhyggjum af því að saksóknarar hafi meinað verjanda um að hitta Rahami.

Saksóknarar í New York og New Jersey hafa ákært Rahami fyrir sprengingarnar tvær sem áttu sér stað á laugardag fyrir viku og fyrir tilraun til að drepa lögregluþjón þegar hann var handtekinn í New Jersey á mánudag.

Rahami hefur verið á sjúkrahúsi í Newark frá því að hann var handtekinn þar sem hann jafnar sig á skotsárum sem hann hlaut þegar hann veitti lögreglumönnum mótspyrnu. Yfirleitt koma sakborningar í sakamálum strax fyrir dómara og fá skipaðan opinberan verjanda ef þeir hafa ekki efni á lögmanni sjálfir. Rahami hefur hins vegar ekki notið aðstoðar verjanda nærri því allan tímann sem hann hefur verið í haldi, að sögn New York Times.

Skipaður verjandi í Union-sýslu sakar saksóknara þar um að hafa komið í veg fyrir að hann fengi að koma á sjúkrahúsið til að kanna ástand Rahami í vikunni í kvörtun sem hann hefur sent til æðsta dómsvalds sýslunnar.

„Það er svívirðilegt að saksóknarinn hafni skipuðum verjanda um leyfi til að heimsækja hr. Rahami. Það er bráðnauðsynlegt að skipaði verjandinn fái aðgang að skjólstæðingi sínum til þess að hægt sé að ganga úr skugga um líkamlegt ástand hr. Rahami og að réttindin hans séu varin,“ segir Udi Ofer, framkvæmdastjóri Bandarísku borgararéttindasamtakanna í New Jersey.

Frétt New York Times 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert