Sagan á bakvið FARC-samtökin

Liðsmaður FARC stendur vörð.
Liðsmaður FARC stendur vörð. AFP

Juan Manuel Santos, forseti Kólumbíu, og Timoleon „Timochenko“ Jimenez, leiðtogi stærstu skæruliðasamtaka landsins, FARC, undirrita í kvöld sögulegan friðarsamning og binda þar með endi á átök sem hafa staðið yfir í 52 ár. En hver eru eiginlega þessi FARC-samtök?

260 þúsund hafa fallið

Um 260 þúsund manns hafa verið drepin síðan átökin hófust og um 6,9 milljónir manna hafa þurft að yfirgefa heimili sín. Að auki hefur ekkert spurst til 45 þúsund manns.

Hvaða samtök eru FARC?

FARC eru stærstu skæruliðasamtök Kólumbíu. Þau voru stofnuð árið 1964 sem vopnaður vængur kólumbíska kommúnistaflokksins sem fylgdi hugmyndafræði Marx og Leníns.

Helstu stofnendur þeirra voru smábændur og landeigendur sem höfðu tekið höndum saman í baráttunni gegn miklu ójafnrétti í Kólumbíu. Þrátt fyrir að FARC hafi starfað eitthvað í borgum hafa samtökin verið langfjölmennust í dreifbýli, samkvæmt fréttaskýringu BBC.

Meðlimir FARC-samtakanna.
Meðlimir FARC-samtakanna. AFP


Hversu margir eru í FARC?

Talið er að um 6.000 til 7.000 virkir skæruliðar séu í samtökunum og að um 8.500 almennir borgarar taki þátt í starfseminni. Skæruliðunum hefur fækkað mikið því talið er að þeir hafi verið um 20 þúsund talsins árið 2002.

Liðsmenn FARC spila fótbolta í búðum sínum í EL Diamente …
Liðsmenn FARC spila fótbolta í búðum sínum í EL Diamente í Kólumbíu, skömmu fyrir undirritun friðarsamningsins. AFP

Hvernig eru samtökin skipulögð?

Þau eru skipulögð í litlum taktískum hópum sem breytast svo í stærri bardagasveitir sem eru skipulagðar á hverju svæði fyrir sig.

Þeim er stjórnað af Secretariat, sem er hópur innan við tólf manna sem hafa umsjón með hernaðaraðgerðum.

Æðsti maður FARC er Rodrigo Londono Echeverri, betur þekktur sem Timochenko.

Juan Manuel Santos, forseti Kólumbíu (til vinstri) og Timochenko.
Juan Manuel Santos, forseti Kólumbíu (til vinstri) og Timochenko. AFP

Af hverju gripu þau til vopna?

FARC-samtökin voru stofnuð þegar öll andstaða gegn stjórnvöldum var bæld niður með skjótum hætti. Ójafnrétti hefur lengi verið við lýði í Kólumbíu, þar sem stór landsvæði eru í eigu lítillar elítu.

Ástæðan fyrir þessu er að hluta til sú að kólumbíska ríkið seldi stór landsvæði til einkaaðila seint á 20. öld og snemma á þeirri 21. til að geta greitt skuldir sínar.

Sumir af stofnendum FARC höfðu stofnað landbúnaðarsamfélag á svæðinu Marquetalia, í héraðinu Tolima í miðri Kólumbíu.

Þeir fengu innblástur frá kúbversku byltingunni á sjötta áratugnum og kröfðust aukinna réttinda og yfirráða yfir landsvæðinu.

Ríku landeigendurnir litu á þá sem ógn við sig og kólumbísk yfirvöld sendu herinn til að leysa upp samfélagið, eða Marquetalia lýðveldið, eins og það var kallað.

FARC-samtökin segjast hafa ákveðið að grípa til vopna eftir átökin við herinn í Marquetaila.

Liðsmenn FARC.
Liðsmenn FARC. AFP

Var friðsælt í Kólumbíu áður en FARC kom til sögunnar?

Nei, það hafði tíu ára borgarastyrjöld staðið yfir í Kólumbíu áður en FARC-samtökin voru stofnuð.

Á meðan á þessu tímabili stóð, sem hefur verið kallað La Violencia (Ofbeldið), er talið að á bilinu 200 til 300 þúsund manns hafi verið drepin.   

La Violenca var hrundið af stað eftir að Jorge Eliecer Gaitan, vinsæll forsetaframbjóðandi Frjálslynda flokksins, var myrtur árið 1948.

Eftir að hann var skotinn í Bogota, höfuðborg Kólumbíu, urðu miklar óeirðir í borginni. Tíu ára átök fylgdu í kjölfarið á milli Frjálslynda flokksins og Íhaldsflokksins.

Maðurinn sem síðar varð leiðtogi FARC, Manuel Marulanda, barðist í La Violenca.

AFP

Hverjir gengu til liðs við FARC?

Mannréttindasamtök hafa sakað FARC um að hafa þvingað fátæka bændur og börn til að ganga til liðs við sig. FARC segja að allir sem hafi komið til þeirra hafi gert það sjálfviljugir.

Samkvæmt þeim var 21 barn undir 15 ára aldri í þeirra röðum í maí á þessu ári.

Flestir skæruliðanna er fátækt dreifbýlisfólk, bæði konur og karlar á öllum aldri. Sumir sem hafa yfirgefið samtökin segjast hafa verið lokkaðir þangað með loforðum um að þeir eigi ævintýri í vændum og að þeir fái að nota byssur.

AFP

Við hverja hafa þau barist?

Höfuðandstæðingar FARC hafa verið kólumbískar öryggissveitir. Skæruliðar FARC hafa ráðist á lögreglustöðvar og herstöðvar og setið fyrir hermönnum. Þeir hafa einnig sprengt upp olíuleiðslur, rafmagnsmöstur, brýr og samkomuhús. Mörg af fórnarlömbum þeirra hafa verið almennir borgarar, þar á meðal börn.

Þúsundum manna hefur verið rænt af meðlimum FARC sem hafa krafist lausnargjalds. Einn lögreglumaður, Luis Mendieta, var tekinn höndum í árás á lögreglustöð árið 1998. Hann var í haldi í 14 ár þangað til herinn frelsaði hann í aðgerð sem kallaðist Kamelljónið.

Luis Quintiba, meðlimur FARC, sýnir blaðamanni byssuna sína fyrr í …
Luis Quintiba, meðlimur FARC, sýnir blaðamanni byssuna sína fyrr í mánuðinum. AFP

Hvernig hafa þau fjármagnað sig?

Sérfræðingar telja að FARC séu á meðal ríkustu skæruliðasamtaka heims. Yfirmenn þeirra hafa samt neitað því að eiga stóra stafla af peningum í hirslum sínum.

Kólumbía er einn stærsti kókaínframleiðandi heims og skæruliðarnir fá stóran hluta af innkomu sinni með því að selja eiturlyf eða innheimta „skatta“ af þeim sem gera það. Þeir hafa einnig beitt fjárkúgunum og rænt fólki í von um lausnargjald til að fjármagna starfsemi sína.  

AFP

Af hverju fóru þau í friðarviðræður?

Skörð hafa verið höggvin í FARC-samtökin af kólumbískum öryggisveitum undanfarin ár. Kólumbíski herinn og lögreglan hafa fengið milljónir dollara frá bandarískum stjórnvöldum. Mestur peningurinn hefur farið í að berjast við skæruliðana.

Margir af leiðtogum FARC hafa verið drepnir eða hafa látist undanfarinn áratug.

Árið 2008 var skæruliðaleiðtoginn Raul Reyes drepinn í sprengjuárás og stofnandi FARC, Manuel Marulanda, lést af eðlilegum orsökum.

Árið 2011 féll Alfonso Cano, sem tók við af Marulanda, einnig í sprengjuárás.

Alltaf viljað frið

FARC-samtökin segjast alla tíð hafa viljað frið en að aðstæðurnar hafi hingað til ekki verið réttar.

Eftir þriggja og hálfs árs viðræður og leyniviðræður sem fóru fram þar á undan, ætla samtökin að leggja niður vopn.  

Um leið og friðarsamningurinn hefur verið undirritaður í kvöld mun Evrópusambandið fjarlægja FARC tímabundið af lista sínum yfir hryðjuverkasamtök. Ef allt verður í lagi eftir sex mánuði getur farið svo að samtökin verði alfarið tekin af listanum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert