Tyrkneskir dómstólar hafa úrskurðað alls 32.000 manns í gæsluvarðhald vegna gruns um tengsl við klerkinn Fetullah Gulen, sem tyrknesk stjórnvöld telja bera ábyrgð á misheppnaðri valdaránstilraun í landinu um miðjan júlí.
„Þetta er enn í ferli,“ hefur NTV sjónvarpsstöðin eftir Bekir Bozdag, dómsmálaráðherra Tyrklands, sem sagði rannsókn yfirvalda hafa náð til alls 70.000 manns í kjölfar valdaránstilraunarinnar. Þar af sættu 32.000 manns nú gæsluvarðhaldi. Eru þetta rúmlega 10.000 fleiri en áður yfirvöld hafa áður sagt sæta gæsluvarðhaldi í kjölfar valdaránstilraunarinnar.
Að sögn Bozdag er ekki hægt að útiloka að ennþá fleiri verði teknir höndum, og þá kunni svo einnig að fara að einhverjir þeirra sem nú eru í haldi verði látnir lausir áður en til réttarhaldanna kemur.
Ekkert hefur hins vegar enn verið gefið upp um hvenær réttarhöld hefjist yfir þeim sem taldir eru standa að baki valdaránstilrauninni. Ljóst má þó vera að réttarhöldin verða þau stærstu í sögu Tyrklands og munu setja mikið álag á dómskerfi landsins.
„Það er ekki alveg ljóst hvernig staðið verður að réttarhöldunum,“ sagði Bozdag. Enginn þörf væri þó á að útbúa sérstakan vettvang fyrir þau réttarhöld sem -haldin verða í Istanbúl, en hins vegar þyrfti að útbúa slíkan stað í höfuðborginni Ankara, þess vegna sé nú unnið að því að reisa dómsstað í Sincan, sem er í næsta nágrenni við Ankara.
„Það verður ekki réttað yfir öllum á einum stað. Það verða haldin réttarhöld um allt Tyrkland,“ sagði hann.
Ríki ESB hafa lýst yfir áhyggjum af umfangi þeirrar herferðar sem tyrknesk stjórnvöld hafa lagst í í kjölfar valdaránsins. Stjórn Tayyip Recep Erdogans Tyrklandsforseta fullyrði þó að lögum sé fylgt.