Tvennum sögum fer af þjóðerni manns sem beit stykki úr eyra farþega um borð í lest í Þýskalandi. Að minnsta kosti tveir þýskir fjölmiðlar segja hann íslenskan en aðrir að hann hafi verið norskur.
Frétt mbl.is: Íslendingur beit bút úr eyra manns
Í fréttum þýsku blaðanna Bild og BZ kemur fram að um Íslending hafi verið að ræða og að hann sé á fimmtugsaldri. Í öðrum miðlum s.s. The Local í Noregi segir að árásarmaðurinn hafi verið norskur.
Öllum miðlunum ber þó saman um atburðarásina. Maðurinn hafi gert hróp að öðrum farþega og kallað hann illum nöfnum, m.a. sakað hann um að vera hryðjuverkamaður. Þriðji maðurinn hafi reynt að stilla til friðar en hafi þá orðið fyrir fólskulegri árás. Árásarmaðurinn hafi bitið stórt stykki úr eyra hans.
Sá sem fyrir árásinni varð var fluttur á sjúkrahús og sá sem á hann réðst var handtekinn og á yfir höfði sér ákæru fyrir líkamsárás.