Flugskeytið kom frá Rússlandi

Nefndin kynnti rannsókn sína fyrir fjölmiðlum nú í morgun.Allt að …
Nefndin kynnti rannsókn sína fyrir fjölmiðlum nú í morgun.Allt að 200 rannsakendur tóku þátt í rannsókninni og sönnunargögnin eru ítarleg. AFP

Flugskeytið sem skaut niður farþegaþotu Malaysian Airlines, MH17, yfir Úkraínu árið 2014, var rússneskt og því var skotið upp frá yfirráðasvæði uppreisnarmanna í Úkraínu. 

Þetta eru niðurstöður tveggja ára rannsóknar alþjóðlegrar nefndar saksóknara og sérfræðinga frá Hollandi, Ástralíu, Belgíu og Malasíu á því  hvað gerðist þegar MH17 var skotin niður yfir Dontesk í Úkraínu þann 17. júlí 2014 með þeim afleiðingum að 298 manns létu lífið.

Frétt mbl.is: Staðsetja flaugina sem grandaði MH17

Í niðurstöðum nefndarinnar er fullyrt að flugskeytið, sem var af gerðinni BUK, hafi verið flutt frá Rússlandi til Donetsk þar sem því  var skotið upp á yfirráðasvæði uppreisnarmanna.

Flugvélin var á leið frá Amsterdam til Kuala Lumpur þegar hún var skotin niður og voru flestir þeirra 298 sem fórust börn og ungmenni á leið sumarfrí, 193 hinna látnu voru frá Hollandi.

Sáu flugskeytavörpuna flutta til Úkraínu

Fréttavefur BBC hefur eftir ættingjum fórnarlambanna að rannsakendur hefðu greint þeim frá því að þeir hefðu yfirheyrt hundruð manna vegna atburðarins. „Þeir sögðu okkur frá því hvernig BUK—skeytið var flutt og hvernig þeir öfluðu þeirra upplýsinga með símhlerunum, myndbandsupptökum og ljósmyndum,“ sagði Robby Oehler, sem missti frænku sína þegar vélin hrapaði.

Niðurstöður rannsóknarinnar á að nota til að undirbúa málshöfðun vegna atburðarins og leyfðu rannsakendur blaðamönnum að heyra upptökur af símtölum sem hleruð höfðu verið vegna málsins, á fréttmannafundi sem haldinn var nú í morgun.

Þá sögðust þeir einnig hafa yfirlýsingar vitna sem höfðu séð flugskeytavörpuna flutta frá Rússlandi til Úkraínu.

Rússar beittu á sínum tíma neitunarvaldi í Öryggisráði Sameinuðu þjóðanna gegn því að Sameinuðu þjóðirnar létu framkvæma slíka rannsókn.

Skotið upp í nágrenni Pervomaisk

Vefur norska dagblaðsins Aftenposten segir mikilvægustu niðurstöður skýrslunnar vera þær að BUK-flugskeytinu hafi verið skotið upp á svæði í nágrenni Pervomaisk, sem liggur sex kílómetra suður af bænum Snizhne, sem sé nokkuð innan svæðis uppreisnarmanna.

Rannsakendur staðfesti enn fremur að flugskeytið hafi verið rússnesk BUK flaug, sem skömmu áður hafði verið smyglað frá Rússlandi til uppreisnarmannanna.

Í skýrslunni eru birtar hundruð mynda sem styðja niðurstöður nefndarinnar, ásamt vitnisburðum og tæknilegum skýringum.

Allt að 200 rannsakendur tóku þátt í rannsókninni og sönnunargögnin eru ítarleg. Sannanir voru sóttar til 20 landa og rannsakendur hafa við vinnu sína skoðað um hálfa milljón myndbanda og ljósmynda, auk þess að skoða upplýsingar tengdar 150.000 símtölum.

Þá hafa um 200 vitni verið yfirheyrð í tengslum við málið, oft undir erfiðum aðstæðum.

„við höfum svo mikið af sönnunargögnum að við getum sagt hvar flauginni var skotið upp,“ hefur Aftenposten eftir rannsakendum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert