Geta ekki tryggt að Snowden verði ekki framseldur frá Noregi

Snowden dvelur í Moskvu en hefur haldið fyrirlestra út um …
Snowden dvelur í Moskvu en hefur haldið fyrirlestra út um allan heim í gegnum fjarfundarbúnað. AFP

Norskur áfrýjunardómstóll hefur komist að þeirri niðurstöðu að ekki sé hægt að veita Edward Snowden tryggingu þess efnis að hann verði ekki framseldur til Bandaríkjanna ef hann ferðast til Noregs til að taka á móti verðlaunum.

Dómstóllin sagði ómögulegt að fjalla um málið fyrirfram, þ.e. áður en Snowden kemur til landsins og á meðan engin framsalsbeiðni liggur fyrir frá bandarískum stjórnvöldum.

Í Bandaríkjunum á Snowden yfir höfði sér ákærur sem gætu orðið til þess að hann þarf að afplána áratugalangan fangelsisdóm.

Frétt mbl.is: Stjórnarandstaðan jákvæðari í garð Snowden

Snowden fór með málið fyrir dómstóla eftir að norksa dómsmálaráðuneytið úrskurðaði að ekki væri hægt að tryggja að Snowden yrði ekki framseldur þegar framsalsbeiðni lægi ekki fyrir.

Norska deild PEN Club hefur boðið uppljóstraranum til Oslo 18. nóvember nk. til að veita Ossietzky-verðlaununum viðtöku, en þau eru veitt þeim sem þykja hafa lagt mikið í sölurnar í þágu tjáningarfrelsisins.

PEN Club hefur sagt að málinu verði áfrýjað til hæstaréttar.

Noregur er eitt þeirra landa þar sem Snowden sótti um hæli eftir að hann flúði Bandaríkin en stjórnvöld sögðu umsóknina ekki gilda þar sem Snowden var ekki staddur í landinu þegar hún barst.

Snowden, sem er ýmist álitin hetja eða skúrkur, vann til annarra norskra verðlauna árið 2015 en gat ekki verið viðstaddur af ótta við framsal.

Hann hefur verið tilnefndur til Nóbelsverðlauna, þriðja árið í röð.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert