Leita við tré sem stóð ekki 1991

Ben Needham.
Ben Needham. Skjáskot af Sky

Lögregla sem leitar Ben Needham rannsaka nú mynd sem tekin var skömmu eftir að hann hvarf. Myndin virðist benda til þess að tré hafi verið gróðursett á staðnum þar sem hann sást síðast.

Lögreglumennirnir gerðu uppgötvunina á grísku eyjunni Kos þegar þeir voru að kanna hvað hefði breyst á svæðinu frá því að Needham hvarf fyrir 25 árum. Myndin var tekin af blaðaljósmyndara sem heimsótti staðinn 10 til 15 dögum eftir hvarfið.

Þegar drengurinn hvarf, aðeins 21 mánaða gamall, var afi hans að gera upp fasteign sem stóð á þurru beitilandi.

Nítján manna teymi frá lögreglunni í Suður-Yorkshire hefur verið við uppgröft á svæðinu eftir að nýjar upplýsingar litu dagsins ljós. Sérfræðingar vinna nú að því að kemba jarðveginn umhverfis tréð sem vantar á ljósmyndina.

Í gær fannst efnisbútur á staðnum þar sem ítarleit lögreglu stendur yfir.

„Það var mynd tekinn, sem er eina heimildin sem við höfum, um það leiti sem Ben hvarf árið 1991,“ hefur Sky eftir lögreglumanninum Jon Cousins. „Við höfum getað greint hana og erum að leita á svæðinu umhverfis tréð.“

Rannsakendurnir hafa sagt Kerry Needham, móður Ben, að búa sig undir hið versta. Þeir telja líklegt að hafi látist af slysförum daginn sem hann hvarf.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka