Tár eða sviti smitleiðin

AFP

Tæplega fertugur Bandaríkjamaður kann að hafa smitast af Zika-veirunni af tárum eða svita föður á dánarbeðinu. Ef þetta reynist rétt þá er það í fyrsta skipti sem Zika berst á milli manna með þessum hætti.

Maðurinn, sem býr í Utah, veiktist eftir að hafa sinnt föður sínum sem var lagður á sjúkrahús í júní sýktur af Zika-veirunni. Faðirinn, 73 ára, smitaðist á ferðalagi í Mexíkó. Fjallað er um mál feðganna í The New England Journal of Medicine en áður var vitað til þess að fólk hafi smitast með moskítóbitum og kynmökum með sýktri manneskju. Búið er að útiloka að maðurinn hafi getað smitast á þann hátt.

Maðurinn á að hafa strokið augu föður síns og aðstoðað hjúkrunarfræðing við sinna honum án þess að setja á sig hanska. Hann komst aldrei í snertingu við blóð eða aðra vessa föður síns. 

Rannsóknir hafa leitt í ljós að faðirinn var mjög hátt magn veirunnar í blóði sínu, yfir 100 þúsund sinnum meira en hjá öðrum sem hafa veikst. Það er talið geta skýrt hvers vegna sonur hans smitaðist á þennan hátt.

Ekki er vitað hvers vegna Zika gildið er svo hátt í blóði föðurins en talið að það geti verið vegna þess að hann hafði áður fengið beinbrunasótt. 

Faðirinn hafi mánuði áður en hann smitaðist af Zika farið í geislameðferð vegna krabbameins í blöðruhálskirtli og var í lyfjameðferð. Faðirinn lést fjórum dögum eftir að hann var lagður inn á sjúkrahúsið í Utah og var fyrstur til þess að deyja úr Zika-veirunni í Bandaríkjunum. Sonurinn veiktist en ekki alvarlega og náði sér á um það bil viku.

Allt um Zika á vef landlæknis

Beinbrunasótt - skýringar á vef landlæknis

Beinbrunasótt er landlægur sjúkdómur á eftirtöldum landssvæðum: Suður- og Mið-Ameríku, Afríku, Miðausturlöndum, Asíu, Ástralíu og Vestur-Kyrrahafseyjum. Fregnir berast af og til um faraldra á þessum svæðum. Stöku tilfelli beinbrunasóttar greinast á Norðurlöndum hjá ferðamönnum sem snúa heim eftir dvöl á svæðum þar sem beinbrunasótt er landlæg.

Smitefni
Smitefnið er veira sem tilheyrir Flavi-veirum, vitað er um fjórar sermisgerðir veirunnar (Dengue 1, 2, 3 og 4). Allar sermisgerðirnar geta valdið blæðandi beinbrunasótt, en sermisgerð 2 orsakar flest tilfellin. Sýking með einni sermisgerð gefur ævilangt ónæmi gegn samsvarandi sermisgerð en hún ver ekki gegn hinum.

Smitleiðir og meðgöngutími
Smit berst með biti moskítóflugna af Aedes-ætt, ýmist Aedes egypti eða Aedes albopictus. Veiran berst í fluguna þegar hún sýgur blóð úr sýktum öpum eða mönnum. Beinbrunasótt smitar ekki manna á milli.
Meðgöngutími er 2-14 dagar, í flestum tilfellum 4-7dagar.

Einkenni og fylgikvillar
Helstu einkenni beinbrunahitasóttar eru höfuðverkur, bein- og liðverkir og makúlópapiller (upphleypt flöt) útbrot koma eftir nokkra daga. Sjúkdómurinn gengur oftast yfir og sjúklingurinn nær sér að fullu. Stundum er vægur hiti eina einkennið og einnig getur sýkingin verið án einkenna.

Blæðandi beinbrunasótt er alvarlegri sjúkdómsmynd. Helstu einkenni eru hár hiti, blæðingar í slímhúðum og húð og oft fylgir lifrarstækkun. Í alvarlegum tilfellum getur orðið blóþrýstingsfall vegna taps á blóðvökva út í vefi. Það er hættulegt ástand sem getur leitt til dauða í 40-50% tilfella ef það ekki er meðhöndlað. Við fullnægjandi vökvagjöf fer dánartíðni niður í 1-2%.

Klínísk sjúkdómsmynd fer eftir aldri og ónæmissvörun viðkomandi ásamt sermisgerð sem veldur sýkingunni. Svo virðist sem fyrri sýking með einni sermisgerð auki líkur á slæmum einkennum við sýkingu með annarri sermisgerð. Börn og unglingar sem búa á svæðum þar sem beinbrunasótt er landlæg eru í mestri hættu á alvarlegum sýkingum.

Greining
Greining er gerð með mælingu á mótefnum í blóðsýni frá viðkomandi.

Meðferð
Ekki er til nein sértæk meðferð við beinbrunahitasótt.

Forvarnaraðgerðir
Ekki er til neitt bóluefni gegn sjúkdómnum. Hægt er að draga úr líkum á smiti með því að verja sig gegn biti moskítóflugna. Aedes-moskítóflugurnar, sem dreifa smitinu, stinga bæði að degi sem nóttu. Þó eru mestar líkur á biti að kvöldi og ber þá að smyrja húðina með áburði sem er fælandi fyrir moskótóflugur, klæðast síðerma skyrtum og buxum með síðum skálmum. Hægt er að úða flugnaeitri í svefnherbergið og mikilvægt er að sofa undir flugnaneti.

Ekki er þörf á einangrun tilfella með beinbrunaasótt. Sjúkdómurinn smitar ekki manna á milli.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert