Slapp Trump við tekjuskatt í 18 ár?

Donald Trump.
Donald Trump. AFP

Samkvæmt gögnum sem New York Times hefur undir höndum virðist sem Donald Trump, forsetaframbjóðandi repúblikana, hafi ekki greitt tekjuskatt í átján ár vegna 900 milljóna dala taps af rekstri árið 1995.

Í frétt NYT kemur fram að tapið sé svo mikið að Trump, sem er umsvifamikill kaupsýslumaður vestanhafs, hafi komist hjá því að greiða tekjuskatt næstu átján árin. 

Trump hefur neitað að birta upplýsingar úr skattframtölum sínum og hefur hvorki játað né neitað hversu miklu hann tapaði á sínum tíma. Aftur á móti hefur Hillary Clinton, mótframbjóðandi hans, birt nánast allar skattaupplýsingar sínar opinberlega.

Í kappræðunum á mánudagskvöldið ýjaði Clinton að skattamálum Trumps með því að segja að hann hlyti að vera að fela eitthvað skelfilegt. Þegar hún sakaði hann um að greiða ekki tekjuskatt þá svaraði Trump því að það sýndi hversu klár hann væri.

Frétt New York Times um skattamál Trumps

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert