Réttað yfir meintum morðingjum Nemtsov

Hinir ákærðu.
Hinir ákærðu. AFP

Rétt­ar­höld hóf­ust í dag yfir fimm Tsjet­sjen­íu­mönn­um sem grunaðir eru um að hafa myrt stjórn­mála­mann­inn Bor­is Nemt­sov, sem var aðstoðarfor­sæt­is­ráðherra Bor­is Jelt­sín og mik­ill gagn­rýn­andi Vla­dimir Pútín.

Nemt­sov hugðist leiða mót­mæli 1. mars 2015 en var skot­inn fjór­um sinn­um í bakið tveim­ur dög­um áður, þegar hann gekk yfir brú nærri Kreml.

Hinir ákærðu, sem eru sagðir hafa fengið greitt fyr­ir morðið, hafa neitað sök.

Fjöl­skylda Nemt­sov hef­ur áhyggj­ur af því að sá sem fyr­ir­skipaði morðið muni aldrei finn­ast. Lög­menn henn­ar sögðu við rétt­ar­höld­in í dag að rann­sókn máls­ins hefði hvorki verið ít­ar­leg né skilað til­skild­um ár­angri.

Lögmaður Zaur Dadayev, fyrr­ver­andi aðstoðarliðsfor­ingja Sever-ör­ygg­is­sveit­anna í Tsjet­sjen­íu, sem ku hafa tekið í gikk­inn, sagðist sak­laus þegar hann birt­ist fyr­ir dómi í dag. Sagt hef­ur verið frá því að Dadayev játaði glæp­inn þegar hann var hand­tek­inn en hélt því fram seinna að hann hefði verið pyntaður.

Ann­ar grunaðra sprengdi sjálf­an sig í loft upp með hand­sprengju þegar lög­regla gerði til­raun til að hand­taka hann í Grozny í mars 2015.

Nemtsov yfirgefur kjörklefa árið 2012.
Nemt­sov yf­ir­gef­ur kjör­klefa árið 2012. AFP

Ákæru­valdið held­ur því fram að menn­irn­ir hafi fengið greidd­ar 15 millj­ón rúbl­ur fyr­ir morðið, en morðvopnið hef­ur ekki fund­ist. 15 millj­ón rúbl­ur gera tæp­ar 28 millj­ón­ir króna.

Sak­sókn­ar­inn Olga Mik­hai­lova sagði í dómsal í dag að nauðsyn­legt væri að kom­ast að því hver hefði fyr­ir­skipað morðið og benti á að Ramz­an Kadyrov, leiðtogi Tsjet­sjen­íu og gagn­rýn­andi rúss­nesku stjórn­ar­and­stöðunn­ar, hefði ekki verið yf­ir­heyrður.

Þá sagði hún að eng­in upp­taka hefði fund­ist af morðinu, jafn­vel þótt það hefði átt sér stað við Kreml.

Rusl­an Muk­hudin­ov, ökumaður yf­ir­manna Sever-sveit­anna, sem hef­ur verið sakaður um að skipu­leggja morðið, hef­ur ekki verið hand­tek­inn. Sam­starfs­menn Nemt­sov segja hins veg­ar að ákær­urn­ar gegn Muk­hudin­ov séu til þess gerðar að breiða yfir aðkomu hærra settra Tsjet­sjen­íu­manna.

Sér­fræðing­ar segja að Dadayev hefði ekki framið glæp af þessu tagi án samþykk­is leiðtoga Tsjet­sjen­íu.

Ítar­lega frétt um málið má finna hjá Guar­di­an.

mbl.is
Fleira áhugavert

Erlent »

Fleira áhugavert