Rífa hluta húss í leitinni að Ben

Ben Needham var tæplega tveggja ára er hann hvarf fyrir …
Ben Needham var tæplega tveggja ára er hann hvarf fyrir 25 árum.

Teymi breskra lögreglumanna er nú að rífa hluta húss á sveitabæ á grísku eyjunni Kos. 21 mánaða drengur, sem hvarf sporlaust árið 1991, sást síðast á sveitarbænum.

Lögreglan leitar nú vísbendinga á jörðinni og vonast til þess að geta leyst þetta 25 ára gamla mannhvarfsmál. Lengi var talið að Ben Needham hefði verið rænt en nú er talið líklegra að hann hafi látist af slysförum við bæinn og verið jarðaður þar. Ein kenningin er sú að drengurinn hafi orðið fyrir vinnuvél og að bílstjóri hennar hafi verið gripinn skelfingu og falið líkið. 

Ben litli var ásamt afa sínum á sveitabænum 24. júlí árið 1991. Afi hans vann að endurbótum á húsi. Síðan hvarf litli drengurinn og ekkert hefur til hans spurst síðan.

Breskir og grískir lögreglumenn hafa grafið á jörðinni síðustu daga, m.a. við ólífutré sem þar stendur. Tréð stendur við hús og hefur lögreglan nú fengið leyfi til að rífa hluta þess og leita undir því.

Í frétt Sky-sjónvarpsstöðvarinnar um málið segir að maður sem vann við endurbætur ásamt afa drengsins hafi látist úr krabbameini á síðasta ári. Vinur hans hafi sett sig í samband við lögregluna stuttu síðar og veitt henni einhverjar upplýsingar sem urðu til þess að ákveðið var að hefja leitina að Ben Needham á ný.

Lögreglan ákvað að kanna jarðveginn undir viðbyggingu sem byggð var við húsið eftir hvarf Bens. 

Á jörðinni hefur verið búið í mörg hundruð ár. Á henni fannst nýlega grafreitur og voru fornleifafræðingar fengnir til að skoða hann. Grafreiturinn er talinn vera 2.000 ára gamall. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka