Stærsta spillingamál Spánar um árabil

Kaupsýslumaðurinn Francisco Correa (til hægri) á yfir höfði sér allt …
Kaupsýslumaðurinn Francisco Correa (til hægri) á yfir höfði sér allt að 125 ára fangelsisdóm verði hann fundinn sekur. AFP

37 manns, þar á meðal for­svars­menn í spænska íhalds­flokk­in­um Partido Pop­ul­ar (PP)  eru nú fyr­ir dómi í Madrid , sakaðir um þátt­töku í viðamiklu spill­inga­neti. Þrír fyrr­ver­andi gjald­ker­ar flokks­ins eru í hópi hinna ákærðu, en málið er stærsta spill­inga­mál sem farið hef­ur fyr­ir spænska dóm­stóla í lang­an tíma.

Kaup­sýslumaður­inn Francisco Cor­rea er sakaður um að hafa verið forsprakki spill­ing­ar­nets­ins og að hafa greitt mútu­greiðslur til að fyr­ir­tæki hans fengju samn­inga við hið op­in­bera víða um Spán. 

Cor­rea á  yfir höfði sér allt að 125 ára fang­els­is­dóm verði hann fund­inn sek­ur í mál­inu. Hann hef­ur sætt gæslu­v­arðhaldi und­an­far­in í þrjú ár og gekk lengi vel und­ir gælu­nafnið „Don Vito“ í höfuðið á aðal­sögu­hetju kvik­mynd­ar­inn­ar Guðfaðir­inn.

Gurtel málið svo nefnda hef­ur hlotið mikið um­tal á Spáni und­an­far­in ár, eða allt frá því að op­in­ber starfsmaður í Madrid kom upp um spill­ing­una og rann­sókn­ar­dóm­ar­inn Baltaz­ar Garzon tók málið til frek­ari skoðunar.

Ana Garrido,  sem kom upp um spill­ing­ar­netið, var op­in­ber starfsmaður í Madrid, þegar hún upp­götvaði fyr­ir tæp­um ára­tug að viss fyr­ir­tæki nutu fyr­ir­greiðslna af hálfu íhalds­flokks­ins í þeim borg­ar­hluta Madrid þar sem hún starfaði, án þess að hefðubund­inna útboðsreglna væri gætt.  Garrido upp­götvaði síðan, er hún fór að skoða málið bet­ur, að það náði langt út fyr­ir henn­ar borg­ar­hluta.

Sönn­un­ar­gögn­in Garrido enduðu síðan í hönd­um dóm­ar­ans Garzon, en sjálf átti hún ekki sjö dag­ana sæla eft­ir að upp komst um málið. „Upp­ljóstr­ar­ar njóta engr­ar vendn­ar á Spáni. Það er ekki bara það að við njót­um ekki vernd­ar, held­ur get­um við líka sætt of­sókn­um af hendi þeirra sem við sök­um um valdníðslu,“ hef­ur frétta­vef­ur BBC eft­ir Garrido.

Meðal þeirra sem ákærðir eru í mál­inu er Luis Barcen­as sem lengi vel gegndi embætti gjald­kera flokks­ins. Hann hef­ur þegar játað að hafa komið sér­stök­um sjóði fyr­ir í Sviss sem sá um að greiðslur bær­ust til ráðamanna flokks­ins.

Heil­brigðisráðherr­ann Ana Mato sagði starfi sínu lausu eft­ir að upp komst um tengsl eig­in­manns henn­ar, Jes­us Sepul­veda, við spill­inga­netið. Hann er meðal þeirra sem kærðir hafa verið, en Mato sjálf hef­ur ekki verið kærð.

Málið þykir allt hið vand­ræðal­eg­asta fyr­ir for­sæt­is­ráðherra Spán­ar, Mariano Rajoy, þó nafn hans hafi ekki borði á góma í rann­sókn­ini.

mbl.is
Fleira áhugavert

Erlent »

Fleira áhugavert