Tony Blair, fyrrverandi forsætisráðherra Bretlands, útilokar ekki að snúa aftur í pólitíkina. Hann segir miðjumenn þurfa að mæta áskorunum íhaldsstefnu sem miðar að „hörðum“ Brexit og öfgavinstriafla Verkamannaflokksins.
Blair spáir því að miðjan muni rísa að nýju og útilokar ekki aðkomu að þeirri þróun. Þetta kemur fram í viðtali við forsætisráðherrann fyrrverandi í tímaritinu Esquire.
„Ég veit ekki hvort það er eitthvað hlutverk fyrir mig,“ segir hann. „Það eru takmörk fyrir því hvað ég vil segja um eigin stöðu á þessum tímapunkti. Allt sem ég get sagt er að þetta er staðan í pólitíkinni. Hef ég sterkar skoðanir á því? Já, það hef ég. Hvetur það mig áfram? Já. Hvert stefni ég? Hvað geri ég? Það er opin spurning.“
Blair segir þá pólitík sem hann hefur aðhyllst hafa mætt miklu bakslagi. Hann sagði þó of snemmt að úrskurða um ósigur miðjunnar. Hann sagði miðjustjórnmál vissulega á undanhaldi, en það væri sú áskorun sem menn stæðu frammi fyrir.
Í viðtalinu ítrekaði Blair gagnrýni sína á Jeremy Corbyn, leiðtoga Verkamannaflokksins, og sagði stefnu hans myndu færa Bretland aftur til 7. áratugarins. Þá benti hann á að formaður Íhaldsflokksins, Theresa May, hefði ekki verið valin í kosningum.
„Það er eitthvað virkilega mikið að.“