Fólk undirbýr sig fyrir það versta

Matthew reif þetta tré upp með rótum með ofangreindum afleiðingum …
Matthew reif þetta tré upp með rótum með ofangreindum afleiðingum þegar hann fór hjá Ormond Beach í Flórída. AFP

Vatn og dósamatur er að verða af skornum skammti í verslunum og fólki hefur verið ráðlagt að halda sig innandyra í dag vegna gríðarmikillar úrkomu og ofsaveðurs. Þetta segir Ásdís Halla Bragadóttir sem stödd er í Tampa í Flórída.

Fellibylurinn Matthew gengur nú upp með austurströnd ríkisins en enn sem komið er hefur hann ekki valdið teljandi eyðileggingu í Bandaríkjunum.

Ásdís Halla og fjölskylda hennar voru í Orlando þegar ljóst varð að fellibylurinn gæti valdið miklum usla á svæðinu. Þau ákváðu þá að færa sig um set til Tampa.

Ásdís Halla Bragadóttir er í fríi á Flórída ásamt fjölskyldu …
Ásdís Halla Bragadóttir er í fríi á Flórída ásamt fjölskyldu sinni. Þau fluttu sig frá Orlando vestur til Tampa þegar ljóst varð í hvað stefndi. mbl.is/Kristinn Ingvarsson

„Við keyrðum í einn og hálfan tíma vestur til að fara aðeins lengra frá storminum,“ segir Ásdís Halla. „Það voru mjög margir sem gerðu það og jafnvel þótt þetta hafi ekki orðið, eða verði ekki jafnslæmt, og menn höfðu áhyggjur af þá er þetta töluvert mikið ástand; gríðarleg rigning og mikið úrhelli. Fólki var beinlínis ráðlagt að vera alls ekki úti við í dag, þannig að fólk var í gær og fyrradag að undirbúa sig þannig að það þyrfti ekki að fara út; út í búð eða slíkt.“

Ásdís Halla segir upplýsingakerfið mjög gott vestahafns og viðbúnaðurinn sé mikill. Bæði sé mikið fjallað um Matthew í fjölmiðlum og þá fái fólk upplýsingar í smáskilaboðum.

„Bandaríkjamenn eru mjög skipulagðir þegar kemur að svona,“ segir hún. „Þannig að fólk fór út í verslanir og þær nánast tæmdust af ýmsum vörum. Og það voru biðraðir á bensínstöðvunum sem voru lengri en ég hef nokkurn tímann séð. Fólk að fylla á tankinn ef allt fer á versta veg. En allt mjög yfirvegað og skipulegt og agað.“

Ásdís Halla segist áður hafa verið stödd á svæðinu á þessum árstíma en hún hafi aldrei upplifað jafnmikinn ótta gagnvart veðrinu.

„Fólk er að búa sig undir það versta en á Flórídasvæðinu er þetta mjög fjarri því að vera eins og maður upplifir að ástandið sé á Haítí, þar sem hörmungarnar eru svona miklar,“ segir hún.

Að sögn Ásdísar Höllu eru menn farnir að hafa áhyggjur af því að vatn sé að klárast í verslunum og þá hefur fólk hamstrað dósamat.

Hún ítrekar þó að ástandið sé langt frá því að vera eins og á Haítí, þar sem að minnsta kosti 572 eru látnir.

„Maður fær sig ekki til að kvarta og kveina þegar maður er að fylgjast með ástandinu á Haítí þar sem fellibylurinn fór yfir með miklum ósköpum og þar sem ríkir hræðilegt ástand, mikil sorg og margir látnir. Og þegar maður fylgist með fólki sem maður kannast við þar, eins og skólabróður mínum sem er búinn að láta vita að það er allt í lagi hjá þeim, þá fær maður sig ekki til að kvarta yfir því þótt maður lendi í smá umferðarteppu eða vöruskorti. Þótt þetta sé mikið á þennan mælikvarða hér, þá upplifir maður þetta frekar sem óþægindi en eitthvert hættuástand.“

Rafmagnslaust á veginum A1A við Cocoa Beach. Ásdís Halla segir …
Rafmagnslaust á veginum A1A við Cocoa Beach. Ásdís Halla segir að jafnvel þótt allt fari á besta veg, þá gæti orðið rafmagnslaust víða. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert