Rick Scott, ríkisstjóri Flórída, hefur hafnað því að framlengja þann frest sem íbúar hafa til að skrá sig á kjörskrá, þrátt fyrir áhyggjur af áhrifum fellibylsins Matthew. Kosningateymi Hillary Clinton hafði kallað eftir því að fresturinn yrði framlengdur en repúblikaninn Scott sagði að fólk hefði þegar haft nægan tíma til að skrá sig.
Robby Mook, kosningastjóri Clinton, sagðist í gær vonast til þess að yfirvöld í Flórída, sem er gríðarlega mikilvægt barátturíki í forsetakosningunum, myndu taka tillit til fellibylsins og framlengja skráningarfrestinn.
Fresturinn rennur út 11. október.
Mook sagði öryggi íbúa í forgangi og hvatti þá til að hlíta fyrirmælum yfirvalda. Öll kosningabarátta er í biðstöðu á meðan óveðrið gengur yfir. Kosningastjórinn sagðist leggja áherslu á öryggi starfsfólks og sjálfboðaliða, og að kosningaherferðin færi ekki af stað aftur fyrr en ógnin væri liðin hjá.
Rick Hasen, prófessor við University of California-Irvine og eigandi Election Law Blog, spáir því að demókratar muni fara í mál ef fresturinn verður ekki framlengdur í Flórída.