Skilur eftir sig slóð eyðileggingar

Stanley á heimili sínu í Haítí, sem er í rúst …
Stanley á heimili sínu í Haítí, sem er í rúst eftir fellibylinn. AFP

Fellibylurinn Matthew fikrar sig nú upp með austurströnd Flórída en skilur eftir sig slóð eyðileggingar í Haíti, á Kúbu, í Dóminíska lýðveldinu og á Bahama-eyjum. Hér á eftir fylgir samantekt yfir það sem vitað er um fellibylinn, sem hefur verið kallaður „skrýmsli“ og kann enn að valda hörmungum.

Haítí

Talið er að um 340 manns hafi látist af völdum Matthew á Haítí. Yfirvöld hafa varað við því að fjöldi látinna muni enn hækka. Fellibylurinn olli gríðarlegri eyðileggingu í landinu; reif sundur brýr, splundraði þökum og lét ár flæða yfir bakka sína.

Talið er að fleiri en 29.000 heimili séu eyðilögð í Sud og yfir 20.000 íbúa eru taldir á vergangi. Borgin Jeremie í suðurhluta landsins er í rúst en að sögn hjálparstofnanna splundraði fellibylurinn 80% bygginga borgarinnar.

Samkvæmt mannúðaraðstoð Sameinuðu þjóðanna þurfa um 350.000 manns á aðstoð að halda.

Kona stendur mitt í eyðileggingunni á Haítí.
Kona stendur mitt í eyðileggingunni á Haítí. AFP

Kúba

Fleiri en 1,3 milljón manna neyddist til að yfirgefa heimili sín á Kúbu, þar sem Matthew fór yfir á þriðjudagsnótt. Ekki er vitað til þess að nokkur hafi látist en yfirvöld segja hinn sögulega bæ Baracoa hafa orðið fyrir miklum skemmdum.

Baracoa var fyrsta nýlendan sem Spánverjar stofnuðu á Kúbú, árið 1511.

Tvær bæir á austurströndinni, Maisi og Imias, eru enn einangraðir eftir fellibylinn.

Dóminíska lýðveldið

Að minnsta kosti fjórir létust, þar af þrjú börn, þegar Matthew fór hjá Dóminíska lýðveldinu. Einn slasaðist. Um 28 var bjargað af húsþökum og úr trjám.

Fleiri en 36.500 voru tilneyddir til að flýja heimili sín og 3.000 heimili eyðilögðust eða skemmdust verulega í ofsaveðrinu.

Fellibylurinn Matthew í gær.
Fellibylurinn Matthew í gær. AFP

Bahama-eyjar

Auga Matthew fór yfir Freeport í gær og náði vindhraðinn 220 km/klst. Vitni sögðu vegina þakta pálmatrjám og girðingabraki. Raforkulínur rofnuðu og mikið regn féll víða. Rúður brotnuðu í sumum hótelum við ströndina.

New Providence, fjölmennasta eyjan, þar sem finna má höfuðborgina Nassau, slapp við versta veðrið en þar rifnuðu tré engu að síður upp með rótum. Þá urðu skemmdir á fjölda opinberra bygginga og heimila.

Myndskeið frá Nassau sýndu eldsneytisstöð í rúst og vatnselg á götunum.

Fjöldi hefst við í fjöldahjálparmiðstöðvum í Flórída.
Fjöldi hefst við í fjöldahjálparmiðstöðvum í Flórída. AFP

Bandaríkin

Eftir viðkomuna á Bahama-eyjum hélt Matthew í norðvesturátt að Flórída. Varað var við því að fellibylurinn gæti haft hörmulegar afleiðingar í ríkinu.

Í morgun var Matthew skilgreindur sem fellibylur af stærðargráðunni 3, af 5 mögulegum. Þá var vindhraðinn við Cape Canaveral um 65 km/klst.

Hámarksvindhraði fellibylsins í morgun var 190 km/klst, þegar hann skreið upp eftir strandlengju Flórída á hraðanum 20 km/klst.

Samkvæmt bandarísku fellibyljamiðstöðinni (NHC) hefur Matthew ferðast samhliða og meðfram ströndinni en ekki liggur fyrir hvort hann muni ganga á land. Í raun væri betra ef hann gengi á land, þar sem bylurinn nærist á heitum sjónum meðfram ströndinni.

Talið er að Matthew gæti valdið 3,3 metra áhlaðanda á sumum stöðum.

Ríkisstjórinn Rick Scott varaði íbúa við víðtæku rafmagnsleysi en þegar eru um 300.000 án rafmagns.

Um 3.500 þjóðvarðliðar hafa verið kallaðir út vegna óveðursins og neyðarástandi hefur verið lýst yfir í Flórída, Suður-Karólínu og Georgíu.

Þúsundum flugferða hefur verið aflýst í Miami og Fort Lauderdale og þá hefur skemmtigörðum verið lokað.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert