„Þessi fellibylur er ófreskja“

Matthew mun valda usla við Flórídaskagann.
Matthew mun valda usla við Flórídaskagann. AFP

„Rýmið, rýmið, rýmið,“ sagði Rick Scott, ríkisstjóri í Flórída, er hann talaði til tveggja milljóna íbúa ríkisins og varaði við komu hins „gríðarlega hættulega“ fellibyls, Matthews. „Þessi stormur mun drepa ykkur,“ sagði hann til að ítreka varnaðarorð sín í gær.

Mið nótt er nú í ríkinu. Talið er að veðrið verði verst þegar tekur að birta og fram eftir degi. Aðeins örfáir fellibyljir af þessari stærðargráðu hafa farið yfir Flórída síðustu áratugi. 

„Þessi fellibylur er ófreskja,“ sagði Scott. „Ég vil að allir haldi lífi. Við getum endurbyggt heimili. Við getum endurreist fyrirtæki. En við getum ekki endurvakið líf.“

Veðurfræðingar segja að bylurinn sé svo öflugur að heilu svæðin geti orðið óbyggileg vikum eða jafnvel mánuðum saman eftir að hann hefur lokið sér af. Mikil rigning fylgir óveðrinu og flóð gætu gert það einnig, m.a. við strendur Flórída, Georgíu og Suður-Karólínu. „Veðurstofan hefur ekki tekið svona sterkt til orða frá því að Katrína gekk á land árið 2005,“ segja fréttamenn CNN.

Neyðarástandi hefur verið lýst yfir í nokkrum ríkjum og útgöngubann var sett á í Daytona Beach á Flórída. Mun það gilda þar til í fyrramálið, laugardag.

Matthew lauk sér af í Karabíska hafinu í gær og skyldi eftir sig gríðarlega eyðileggingu og mannfall. Talið er að yfir 300 manns hafi látist af hans völdum á Haítí. Þúsundir misstu heimili sín.

Matthew kom svo upp að strönd Flórída í nótt. Hann er nú flokkaður sem þriðja stigs fellibylur. 

Þegar eru yfir 200.000 þúsund manns án rafmagns og um 3.000 flugferðum hefur verið aflýst frá Fort Lauderdale-flugvelli í gær og í dag. Fleiri flugvellir munu loka vegna veðursins. Búið er að loka skemmtigörðum, m.a. Disney-landi.

Veðurfræðingar sem fylgjast grannt með ferðum hans geta ekki fullyrt að hann muni fara yfir Flórídaskagann. Auga stormsins er nú úti fyrir ströndinni. Jafnvel er talið að þó að hann sé að fikra sig upp meðfram ströndinni geti hann snúið við og farið sömu leið til baka.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert