572 látnir, 61.500 í neyðarskýlum

Maður gengur eftir götu í Jeremie, sem er sögð í …
Maður gengur eftir götu í Jeremie, sem er sögð í rúst eftir fellibylinn. AFP

Að minnsta kosti 572 eru látnir eftir að fellibylurinn Matthew gekk yfir Haítí. Samgöngur eru erfiðar þar sem brýr hafa hrunið og vegir eru undri vatni. Þá er fjöldi án rafmagns. Heilbrigðisyfirvöld undirbúa sig nú undir kólerufarald.

Talið er að um 61.500 haldi til í neyðarskýlum en fleiri en 3.200 heimil hafa verið eyðilögð.

„Tortímingin er alls staðar,“ segir Pilus Enor, bæjarstjóri Camp Perrin. „Þakið er farið af hverju húsi. Allar plantekrurnar eru eyðilagðar. Þetta er í fyrsta sinn sem við upplifum eitthvað af þessu tagi.“

Matthew hefur hvergi valdið jafn mikilli eyðileggingu og örvæntingu eins og á Haítí. Landið er þegar eitt vanþróaðasta ríki heimshlutans og afar háð erlendri aðstoð.

Flest dauðsföllin áttu sér stað í suðurhluta landsins og yfirvöld óttast að fjöldi látinna eigi enn eftir að hækka er fregnir berast frá afskekktum svæðum.

Borgin Jeremie er sögð í rúst og brúin yfir ánna La Digue í Petit Goave er eyðilögð. Í hafnarbænum Les Cayes fór þakið af kapellu bæjarins og banana- og mangóuppskerur eru ónýtar.

Yfirvöld segja að um 350.000 þurfi á aðstoð að halda og líklega er um að ræða verstu mannúðarkrísu landsins frá því að jarðskjálfti olli ómældum hörmungum þar árið 2010.

Mikið þörf er á vatn og mat, en saltvatn hefur mengað brunna og vatnshreinsunarstöðvar eru skemmdar.

Heilbrigðisyfirvöld undirbúa sig undir mikla fjölgun tilfella kóleru.

Sky sagði frá.

Þúsundir heimila hafa verið eyðilögð og sömuleiðis fjöldi plantekra.
Þúsundir heimila hafa verið eyðilögð og sömuleiðis fjöldi plantekra. AFP

Uppfært kl. 14.05:

Fjöldi látinna uppfærður úr 478 í 572.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert