Íbúar í borginni Jereme í suðurhluta Haítí hafa hafið gríðarmikið hreinsunarstarf eftir að fellibylurinn Matthew gekk þar yfir með tilheyrandi eyðileggingu. Nánast öll bárujárnshúsin í borginni eyðilögðust og aðeins standa eftir fáein steypt hús.
„Við erum að leita að mat vegna þess að við eigum ekkert lengur og húsið okkar er ónýtt,“ sagði einn viðmælenda AFP-fréttastofunnar.
Annar hafði þetta að segja: „Þegar fellibylurinn kom höfðum við ekki tíma til að flýja, alls engan. Við misstum mannslíf. Ég missti móður mína og ég missti barnið mitt.“
Ekki er ljóst hversu margir létu lífið á Haítí af völdum Matthew en staðfest hefur verið að þeir séu ekki undir fjögur hundruð talsins.
Bæði Bandaríkjamenn og Frakkar ætla að senda hermenn og hjálpargögn til landsins.
Dregið hefur mjög úr krafti fellibyljarins og mælist styrkur hans nú 1 en hann fór í 4 þegar mest lét. Bylurinn gekk yfir Suður-Karólínuríki í dag en olli litlum usla.