Þá sáum við konuna mína, hún var dáin“

Gríðarleg eyðilegging blasir við á stórum svæðum á Haítí.
Gríðarleg eyðilegging blasir við á stórum svæðum á Haítí. AFP

Fellibylurinn Matthew gjöreyðilagði 90% heimila á stórum svæðum á Haítí. Að minnsta kosti um 900 manns létust er hann fór yfir eyjarnar fyrr í vikunni. Enn er ekkert samband við marga bæi sem urðu hvað verst úti. Því er talið nær öruggt að tala látinna eigi eftir að hækka mikið.

„Gjöreyðilegging,“ segja björgunarmenn á svæðinu við BBC um ástandið víða. 

Fellibylurinn er nú úti fyrir ströndum Suður-Karólínu í Bandaríkjunum. Hann lék Flórída grátt í gær. Dregið hefur töluvert úr vindhraðanum en eyðingarmáttur hans er þó enn mikill. Nú er m.a. varað við flóðum meðfram ströndinni. Veðurfræðingar segja að hann muni láta að sér kveða að minnsta kosti næstu tvo sólarhringana. Að því búnu fer hann á haf út og verður smátt og smátt að engu.

Reif húsin í tætlur

Byrjað er að leggja mat á eyðilegginguna á eyjunum í Karabíska hafinu. Fellibylurinn er sá mesti sem þar hefur gengið yfir í áratug.

Í gærkvöldi var staðfest að 877 væru látnir. Matthew reif hús eyjaskeggja í tætlur, felldi tré og feykti á loft lausamunum. „Húsið hrundi ofan á okkur. Við gátum ekki komist út,“ hefur Reuters-fréttastofan eftir Jean-Pierre Jean-Donald. „Fólk kom að til að aðstoða okkur við að færa brakið. Þá sáum við konuna mína, hún var dáin.“

Gríðarleg úrkoma fylgdi Matthew er hann fór um strendur Haítí. Sjór flæddi víða á land. Vegir fóru í sundur, m.a. aðalbrautir í átt að höfuðborginni Port-au-Prince. 

Hjúkrunarfræðingurinn Kate Corrigan segir við BBC að íbúar margra smábæja séu innlyksa. Corrigan fer nú um svæðið í þyrlu ásamt björgunarmönnum. Hún segir að enn eigi eftir að sjá hvernig ástandið er á stórum svæðum.

Sameinuðu þjóðirnar telja að 350 þúsund manns þurfi neyðaraðstoð strax. Fjarskipti eru í lamasessi, margir eru án vatns og rafmagns. Reynt er að koma neyðaraðstoð, s.s. vatni og matvælum, til þeirra sem verst urðu úti, með þyrlum.

Fyrir og eftir Matthew: Borgin Jeremie er rústir einar eftir …
Fyrir og eftir Matthew: Borgin Jeremie er rústir einar eftir fellibylinn.

Þá er talin hætta á að kólerufaraldur brjótist út, m.a. vegna þess að fólk hefur ekki aðgang að hreinu vatni.

Haítí er eitt fátækasta ríki heims. Íbúar þess og innviðir landsins hafa enn ekki jafnað sig á gríðarstórum jarðskjálfta sem varð árið 2010 og varð þúsund að aldurtila. Í kjölfar hans fylgdi einmitt mikill kólerufaraldur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert