„Það versta er líklega enn eftir“

Milljón íbúar á Flórída eru án rafmagns og fimm hafa látið lífið vegna fellibyljarins Matthews sem nú heldur sig rétt undan ströndum Georgíu og Suður-Karólínu í Bandaríkjunum. Dregið hefur úr vindstyrknum og er hann nú flokkaður sem annars stigs fellibylur.

Klukkan sex í morgun að íslenskum tíma var Matthew að nálgast borgirnar Charleston í Suður-Karólínu og Savannah í Georgíu. Enn er talið að hann geti valdið flóðum á þessum svæðum og víðar við ströndina.

„Það er enn hætta á lífshættulegum flóðum næstu 36 klukkustundirnar meðfram norðausturströnd Flórída, Georgíu og Suður-Karólínu,“ segir í viðvörun fellibyljastofnunarinnar á Miami. 

Yfirvöld í Suður-Karólínu fyrirskipuðu þúsundum íbúa að rýma heimili sín og koma sér í neyðarskýli sem m.a. höfðu verið sett upp í íþróttahúsum skóla í ríkinu. 

Vel var varað við óveðrinu og var milljón Bandaríkjamanna gert að rýma hýbýli sín og útgöngubann var sett á á sumum svæðum. Útgöngubannið er talið ná til um þriggja milljóna manna.

Um 800 manns létust vegna Matthews er hann fór yfir Haítí fyrr í vikunni. Matthew er enginn venjulegur fellibylur, hann er talinn einstakur. Slíkur fellibylur hefur ekki látið finna fyrir sér á Flórída í heila öld, að sögn veðurfræðinga vestanhafs. 

Þegar Matthew fór yfir Haítí og aðrar eyjar í Karabíska hafinu var vindstyrkur hans mun meiri en nú. Hann var þá flokkaður sem fjórða stigs fellibylur og skildi eftir sig slóð eyðileggingar. 

Það er þó langt í frá allur vindur úr honum. Sérfræðingar segja að hann geti enn valdið miklu tjóni í Bandaríkjunum og því eru rýmingaráætlanir og útgöngubönn enn í gildi víða.

„Þetta er enn þá mjög hættulegur fellibylur,“ sagði Barack Obama Bandaríkjaforseti í gær. „Hættan á flóðum, mannfalli og mjög mikilli eyðileggingu er enn til staðar.“

Obama lýsti í fyrradag yfir neyðarástandi í Flórída, Georgíu og Norður- og Suður-Karólínu. Ráðamenn vöruðu ítrekað við veðurofsanum og rýmdu skipulega svæði við ströndina og á láglendi. 

Mikil úrkoma fylgir Matthew. Hann hefur rifið tré upp með rótum, háar byggingar sveiflast í vindinum og segja má að sumir bæir og hverfi sumra borga séu eins og draugabæir vegna rýminga og útgöngubanna.

Að minnsta kosti fimm hafa látist á Flórída vegna veðursins. Tré sem féllu urðu tveimur konum að bana. Þá lést eitt par vegna kolsýringseitrunar sem myndaðist er það kveikti á rafstöð vegna rafmagnsleysis inni í bílskúr sínum.

„Það versta er líklega enn eftir,“ sagði Rick Scott, ríkisstjóri í Flórída, í nótt og vísaði þar til flóðahættu sem enn er fyrir hendi.

Á sumum stöðum, eins og í bænum St Augustine, hafa tré fallið á götur og ómögulegt er fyrir fólk að komast á milli staða. Bæjarstjórinn segir að einhverjir íbúar hafi neitað að yfirgefa heimili sín, þrátt fyrir tilmæli um rýmingu.

Talið er að Matthew haldi á haf út á morgun, sunnudag. 

„Biðjið fyrir ykkur,“ sagði þingmaðurinn og repúblikaninn Buddy Carter, á blaðamannafundi. „Biðjið fyrir því að þessi fellibylur fari frá landi og skaði engan.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert