Verður dónatalið Trump að falli?

Donald Trump segist ætla að ræða málið frekar í kappræðunum …
Donald Trump segist ætla að ræða málið frekar í kappræðunum á sunnudagskvöld. AFP

„Ummæli Donalds Trump um konur eru svo afdráttarlaus, svo móðgandi og svo ógeðfelld að jafnvel hann sjálfur sá tilefni til þess að biðjast afsökunar,“ segir í upphafi ítarlegrar greinar á forsíðu CNN. En er hann búinn að vera eftir að upptaka af því þegar hann stærði sig af því að grípa í hvaða konu sem hann vildi, jafnvel „píku“ þeirra, eins og hann sjálfur orðaði það, var birt í fjölmiðlum í gærkvöldi?

Frétt mbl.is: „Grípa í píkuna á þeim“

Fjölmiðlar í Bandaríkjunum eru uppfullir af viðbrögðum fólks, stjórnmálamanna sem og annarra, við ummælunum sem voru full kvenfyrirlitningar. Hann baðst í kjölfarið afsökunar og sagðist ekki vera sá maður í dag sem hann var þá, þ.e. árið 2005. „Það sem ég sagði var rangt. Og ég biðst afsökunar.“

Er afsökunarbeiðnin nóg?

Stjórnmálaskýrendur velta því nú fyrir sé hvort að afsökunarbeiðnin sé nóg. Eða hvort ummælin hafi verið þess eðlis að kjósendur muni einfaldlega ekki getað fyrirgefið honum.

Það er ekki síst vegna þess að Trump hjólaði í Bill og Hillary Clinton í sömu andrá og hann baðst afsökunar. „Bill hefur misnotað konur og Hillary hefur ráðist á, niðurlægt og lagt fórnarlömb hans í einelti,“ sagði Trump.

Sagðist hann ætla að ræða þetta mál frekar í kappræðunum á sunnudagskvöld.

Slæm tímasetning

Stjórnmálaskýrendur segja að ummæli Trumps hefðu ekki getað komið fram á verri tíma fyrir framboð hans, rétt fyrir næstu kappræður. Aðeins mánuður er í dag til forsetakosninganna.

Oftsinnis hefur það komið fram í fjölmiðlum að Trump virðist komast upp með næstum hvað sem er. Hann hefur margoft verið gagnrýndur fyrir það hvernig hann talar um konur en það virðist engin áhrif hafa haft á fylgi hans hingað til.

En nú telja margir að breyting gæti orðið á. Meðal þeirra sem hafa gagnrýnt Trump harðlega eru aðrir repúblikanar. Nærveru hans er t.d. ekki lengur óskað á haustsamkomu flokksins um helgina.

Neyðarfundur haldinn

CNN segist hafa heimildir fyrir því að í gær hafi verið haldinn neyðarfundur meðal hans helstu ráðgjafa í kosningabaráttu.

Eftir miðnætti birti Trump svo stutt myndskeið með afsökunarbeiðni sinni. Hann notaði m.a. hina klassísku aðferð stjórnmálanna: Að biðjast afsökunar hafi hann móðgað einhvern.

CNN hefur eftir einum ráðgjafa hans að ummælin sem forsetaframbjóðandinn lét falla árið 2005 hafi „hreint út sagt verið fráleit“.

Varð óglatt vegna ummælanna

Forseti Bandaríkjaþings, repúblikaninn Paul Ryan, er meðal þeirra sem hafa fordæmt ummælin. Segist honum hafa orðið óglatt við að heyra þau.

Búist er við því að ummælin muni að minnsta kosti hafa áhrif á einhvern hluta kjósenda Trumps. Hann hefur þegar kallað konur „svín“ og komist upp með það. Hann hefur sagt niðrandi hluti um Mexíkóa, kallað þá glæpamenn og nauðgara, og komist upp með það.

En er mælirinn nú fullur?

CNN hefur eftir starfsmanni framboðs Trumps að margir standi hreinlega á öndinni. „Við erum að reyna að skilja þetta, en það virðist engin leið til að gera gott úr þessu. Það er bara þannig,“ hefur CNN eftir starfsmanninum. Annar starfsmaður sagði hreint út: „Þetta er slæmt. Ég held að þetta sé búið.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert