Ban kallar á alþjóðasamfélagið

Ban Ki-moon, framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna.
Ban Ki-moon, framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna. AFP

Gríðarmikils alþjóðlegs átaks er þörf til að kljást við eyðileggingu fellibylsins Matthew á Haítí, segir Ban Ki-moon, framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna.

Að minnsta kosti 1,4 milljónir manna þarfnast bráðrar aðstoðar, fleiri en 300 skólar hafa skemmst, á meðan akrar og matarbirgðir hafa gjöreyðilagst, sagði Ban við fréttamenn í dag.

Leiftursöfnun hafin

Sameinuðu þjóðirnar hafa hrundið af stað svokallaðri leiftursöfnun, þar sem óskað er eftir 120 milljónum bandaríkjadala til að mæta þörfum Haítíbúa næstu þrjá mánuðina.

„Sumir bæir og þorp hafa næstum þurrkast út af kortinu,“ sagði Ban. „Þeim fjölgar sífellt sem þarfnast aðstoðar, eftir því sem við komumst í samband við fleiri svæði.“ 

Samkvæmt upplýsingum frá yfirvöldum á Haítí hafa að minnsta kosti 372 látist vegna fellibyljarins, en óttast er að hundruð til viðbótar finnist látnir næstu daga.

„Ég kalla á alþjóðasamfélagið til að sýna samstöðu og örlæti – og að vinna saman á skilvirkan hátt til að bregðast við þessu neyðarástandi.“

Bandarísk hjálpargögn flutt úr herþyrlu á Haítí fyrr í dag.
Bandarísk hjálpargögn flutt úr herþyrlu á Haítí fyrr í dag. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert