Senda milljón bóluefnaskammta til Haítí

Eyðileggingin er gríðarleg á Haítí.
Eyðileggingin er gríðarleg á Haítí. AFP

Alþjóðaheilbrigðisstofnunin hyggst senda milljón skammta af bóluefni gegn kóleru til Haítí. Kólerutilfellum hefur fjölgað mjög þar í landi eftir að fellibylurinn Matthew fór þar yfir í síðustu viku en smitin berast með vatn og drykk.

Að minnsta kosti 372 létust í fellibylnum en í kjölfarið hafa um 200 greinst með kóleru í suðurhluta landsins. Yfirvöld hafa átt í stöðugri baráttu við sjúkdóminn í kjölfar jarðskjálftans sem reið yfir 2010 með hörmulegum afleðingum og talið er að hann hafi dregið 10.000 til dauða.

Að jafnaði hefur verið tilkynnt um 500 ný tilfelli í hverri viku síðustu sex ár. Það sem af er þessu ári hafa 29.000 tilfelli verið greind, eða um 800 í viku.

Venjulega er mælt með því að fólk sé bólusett tvisvar en WHO íhugar nú að bólusetja fólk einu sinni til að ná til sem flestra. Einn skammtur ver fólk frá smiti í um sex mánuði og segja talsmenn stofnunarinnar að það ætti að duga til að vernda fólk á því tímabili sem mest um munar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert