Hafa stöðvað flutning á 100 tonnum af hassi

Hassið fannst í fjölmörgum stórum pokum um borð í skipinu.
Hassið fannst í fjölmörgum stórum pokum um borð í skipinu. Mynd/Europol

Spænska lögreglan, franska tollgæslan, ítalska lögreglan og Europol fundu 19 tonn af hassi í skipi sem sigldi um Miðjarðarhafið 23. september. Með þessu hefur samstarf þessara löggæsluaðila stöðvað flutning á samtals 100 tonnum af hassi á rúmlega einu ári í samtals fimm skipum. Þetta kemur fram í frétt á vef Europol.

Skipið sem var stöðvað í september var á leið til Líbýu og fundust nokkrir stórir pokar af hassi á dekki skipsins við eftirlit lögreglunnar. Var því snúið til hafnar í Almeria á Spáni þar sem 19,6 tonn fundust samanlagt.

Lögregluyfirvöld á svæðinu í samstarfi við Europol hafa tekið höndum saman til að reyna að stemma stigu við stórtækum fíkniefnaflutningi milli landa og er þetta fimmta stóra sendingin sem er stöðvuð frá því um mitt síðasta ár. Á seinni hluta ársins 2015 var um 61 tonn af hassi haldlagt í fjórum skipum sem sigldu um Miðjarðarhafið.  

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert