Verulegar líkur eru á að Zika-veiran muni ná útbreiðslu í Asíu að mati Alþjóðaheilbrigðisstofnunarinnar (WHO).
Þegar hefur verið tilkynnt um hundruð tilfelli veirunnar í Singapore og þá hefur fengist staðfest að tvö börn með smáheila hafi fæðst í Taílandi, en smáheili er fæðingargalli sem tengdur hefur verið Zika-veirusýkingu á meðgöngu.
Zika-veiran hefur þegar greinst í 70 löndum, þar af í að minnsta kosti 19 af þeim ríkjum Asíu, sem eru við strendur Kyrrahafsins.
Margaret Chan, forstjóri WHO, sagði sérfræðinga enn vera að leita leiða til að ná tökum á veirunni.
Í skýrslu sem WHO birti á árlegum fundi sínum á Manila á Filippseyjum segir að verulegar líkur séu á að „ný tilfelli og mögulega faraldur“ Zika-veirunnar verði í álfunni. Ein helsta ástæða þessa er að aedes-moskítóflugan, sem ber Zika-veiruna með sér, er útbreidd í Asíu sem er vinsæll viðkomustaður ferðamanna.
Þó vitað sé að Zika-veiran hafi fyrst greinst í Asíu fyrir nokkrum áratugum, þá var það ekki fyrr en eftir að margir ferðamenn sneru heim aftur sem þeir voru greindir með veiruna. Chan velti því upp á fundinum hvort ástæðan væri lélegt heilbrigðiseftirlit, eða hvort vera kynni að stór hluti íbúa hefði þróað með sér ónæmi gegn veirunni.
„Því miður skortir vísindamenn enn þá svör við mörgum mikilvægum spurningum um Zika-veiruna,“ hefur fréttavefur BBC eftir Chan.