Húsið stóð hátt við hvíta ströndina og útsýnið var fagurblátt hafið. Edouard fjölskyldan hafði það gott, miðað við aðra Haítíbúa. En þá gekk fellibylurinn Matthew yfir og fór hörðum höndum um heimilið í þorpinu Zoange, á suðvesturströnd suðurskaga Haítí.
Útsýnið er undurfagurt sem áður en hið fimm herbergja hús er rúst, þar sem fjölskyldan hefst nú við án skjóls.
„Við eigum ekkert,“ segir Mika Edouard, 42 ára fimm barna móðir. Eiginmaður hennar er Alphonse Francois Edouard, 50 ára.
Umhverfis þau liggja bækur og þorna í sólinni. Rúmgafl stendur upp úr steinsteypuhlunkum sem áður mynduðu veggi hússins. Eldhúsið er pottur en umhverfis hann eru diskar sem liggja undir pálmablöðum til að skýla þeim frá heitri sólinni.
Strandvegurinn sem liggur nokkra metra frá húsinu er eina líflína þeirra.
„Fólk á leið framhjá gefur okkur stundum mat,“ segir Mika. Flestar máltíðir samanstanda af banönum elduðum í hveiti.
Fjölskyldan reyndi að standa af sér storminn á heimili sínu og vonuðu að veggirnir, úr steypu og múrsteinum, myndu standast ágjöfina. En þegar þakið fauk af húsinu hófu veggirnir að gefa sig og fjölskyldan leitaði á náðir nágranna.
„Þökk sé guði þá erum við öll á lífi,“ segir Mika. Yngri börn hennar; 9, 12 og 13 ára, hópast í kringum hana. En fjölskyldan á litla von um að endurbyggja heimilið.
Þau reistu húsið sjálf fyrir átta árum. Byggingarefnin voru keypt með tekjum Alphonse, sem námu tæpum 230 krónum á dag. Hann starfaði sem fjárhirðir og stundum sem smiður.
Húsið kostaði fjölskylduna rúmar 170.000 krónur.
„Það er ekkert sem við getum gert,“ segir Mika. „Við getum ekki endurbyggt, við eigum engan pening.“
„Allt er búið,“ segir Alphonse.
Stormurinn tók með sér allar kindur og geitir fjárhirðans, 21 talsins. Allt sem var eftir voru tvö særð dýr. Ávaxtatré sem fjölskyldan reiddi sig á voru eyðilögð. Og nágrannarnir eiga sjálfir í vandræðum og geta því lítið hjálpað.
Eina von Mika er að stjórnvöld eða hjálparsamtök komi fjölskyldunni til aðstoðar.
„Staða okkar er vonlaus,“ segir hún. „Ég bið til guðs fyrir húsinu mínu og fjölskyldunni minni,“ segir hún og aðstoðar eiginmann sinn við að ná í við sem þau ætla að reyna að nota sem skjól.
Það myndi ekki standa af sér sterka vindhviðu, hvað þá annan storm.