Biðja fyrir konunginum

Um 500 Taílendingar hafa safnast saman fyrir utan sjúkrahús í Bangkok og beðið fyrir konungi landsins, Bhumibol Adulyade, sem liggur þar banaleguna. Hann er 88 ára gamall og hefur verið heilsuveill síðustu ár en nú hafa nýrun gefið sig og ástand hans er óstöðugt. Konungurinn hefur ekki sést opinberlega í langan tíma. 

Bhumibol hef­ur setið lengst allra núlif­andi kon­unga en hann hef­ur verið við völd í tæpa sjö ára­tugi. Flest­ir Taí­lend­ing­ar hafa því aldrei þekkt ann­an kon­ung. Óttast er að pólitískur ófriður gæti brotist út í landinu þegar hann deyr.

Taílendingar hafa verið ósparir að senda kónginum batakveðjur á samfélagsmiðlum. Margir hafa litað prófílmynd sína á Facebook bleika en sá litur er sagður geta aukið bata. Þeir sem voru samankomnir við sjúkrahúsið voru margir hverjir klæddir í bleikan lit.


„Ég vildi vera nær honum og biðja fyrir honum af því ég elska hann. Hann hefur gert mikið fyrir Taíland og fyrir okkur,“ sagði Anon Lim 58 ára við AFP-fréttaveituna.

„Ég get ekki hugsað mér hvernig við eigum eftir að geta lifað án konungsins. Hjarta mitt brestur við tilhugsunina. Ég veit ekki hvernig ég á að lýsa því,“ sagði Khomsan Prasertsri
sem er 48 ára og rekur bílaleigu. Hún las bæn sína upphátt fyrir utan sjúkrahúsið.

Herinn í Taílandi hefur smám saman verið að auka völd sín. Hann hefur verið vændur um spillingu og er sagður berjast markvisst gegn lýðræðiskjörnum stjórnmálamönnum í landinu.

Þegar konungurinn lætur lífið er talið að það muni hafa mikil áhrif á efnahaginn í landinu.  

Frétt mbl.is: Dýrkaður og dáður í 70 ár

Fólk biður fyrir kóngi sínum.
Fólk biður fyrir kóngi sínum. AFP
Bleiki liturinn er sagður gefa kónginum kraft.
Bleiki liturinn er sagður gefa kónginum kraft. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert